Tveir gestir á kosningavöku Framsóknarflokksins hafa greinst með Covid-19 og þó nokkrir eru komnir í sóttkví.

RÚV greinir frá.

Fyrr í vikunni var greint frá því að einn einstaklingur sem sótti kosningavöku Framsóknarflokksins á laugardag hefði greinst með Covid. Í skilaboðum frá Framsókn var fólki þakkað fyrir komuna og látið vita af smitinu.

Í skilaboðunum voru gestir vökunnar beðnir um að vera vakandi fyrir einkennum og tekið var fram að þeir einstaklingar sem útsettir voru fyrir smiti væru komnir í sóttkví.

Troðfullt var á kosningavöku Framsóknarflokksins og komust færri að en vildu. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði eftir helgi að honum þætti líklegt að smitum myndi fjölga. Ekki margir hefðu verið með hugann við sóttvarnir um helgina og vísaði hann sérstaklega í kosningavökur flokkanna víða um land.

Í samtali Fréttablaðsins við Þórólf í dag, segir hann það taka smá tíma að sjá afleiðingar helgarinnar. Það verði ekki fyrr en í fyrsta lagi síðari í þessari viku eða í næstu viku. Þá sagði hann jafnframt að hann yrði ekki hissa ef fleiri myndu greinast á næstu dögum í tengslum við skemmtanahald helgarinnar.