Tveir slökkviliðsmenn létu lífið í öflugri sprengingu sem varð í París í morgun. Þá eru tólf alvarlega særðir, samkvæmt upplýsingum frá frönskum yfirvöldum. Slökkvilið er enn á vettvangi að slökkva mikinn eld eftir spreninginguna. Lögregla telur að gasleki hafi valdið sprengingunni, en bakaríið er gjöreyðilagt.

Greint var frá því í morgun að öflug sprenging í bakaríi í 9. Hverfi Parísar hefði valdið miklum tjóni. Bakaríið er gjöreyðilagt og nærliggjandi hús og bílar urðu einig fyrrir miklum skemmdum. Um tvö hundruð slökkviliðsmenn eru enn að störfum á vettvangi að reyna að ná niðurlögum elds sem kom upp eftir sprenginguna. 

Sjá einnig: Öflug sprenging í bakaríi í París

Innanríkisráðherra Frakklands er kominn á vettvang, en lögregla hefur lokað nærliggjandi götum fyrir almenningi til þess að viðbragðsaðialr geti sinnt störfum á vettvangi. „Missirinn virðist vera mikill, og alvarlegur,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands. Hundrað lögreglumenn eru á vettvangi til þess að halda götum lokuðum. Forsætisráðherra Frakklands, Eduard Philippe er einnig kominn á vettvang til þess að líta yfir skemmdirnar.  „Ég var sofandi og vaknaði upp við höggbylgjuna,“ sagði Claire Sallavuard, íbúi í hverfinu við AFP. 

„Allir gluggarnir í íbúðinni sprungu, dyrnar hrukku af hjörunum og ég varð að labba yfir hurðina út úr herberginu, börnin voru skelfingu lostin, þau gátu ekki farið úr herbergjunum sínum.“
Mikill viðbúnaður er í París í dag vegna fyrirhugaðra mótmæla gulvestunga sem safnast hafa saman hvern laugardag frá því í nóvember.