Tveir skjálftar urðu við suðvesturenda Kleifarvants í dag með tæplega klukkustundar millibili. Sá fyrri varð um tuttugu mínútum fyrir hádegi og mældist 3,1 að stærð en sá seinni varð rétt fyrir hálf eitt og mældist 3,0. Báðir fundust þó víða á höfuðborgarsvæðinu og fannst mörgum eflaust sem þeir væru nokkuð stærri, eða svipaðir þeim sem fundust í hrinunni fyrir eldgos.
Starfsmaður Veðurstofunnar segir að skjálftarnir hafi einfaldlega virst stærri vegna þess að þeir urðu nær höfuðborgarsvæðinu en skjálftarnir í hrinunni fyrir gos. Hún segir Veðurstofuna ekki túlka skjálftana sem merki um nokkra breytingu á kvikuganginum.
„Nei, þetta er náttúrulega frekar langt frá. Báðir skjálftarnir urðu við Kleifarvatn og kvikugangurinn er í um tíu kílómetra vestur af þessum stað,“ segir hún.
Þó gæti kvikugangurinn vel verið sökudólgurinn hér, þó engin hreyfing sé á honum. Sérfræðingur Veðurstofunnar segir að áður en skjálftahrinan hófst þar í byrjun árs hafi gífurleg spenna safnast upp í jörðinni. Þegar svo kvikuinnhlaupið kom upp var það eins og „sandkornið sem fyllir mælinn og hrinti öllu af stað“.
Þannig losnaði um gífurlega spennu á skaganum í síðustu hrinu og telja menn nú að skjálftarnir í dag hafi verið svokallaðir gikkskjálftar. Það er að segja eins konar eftirskjálftar hrinunnar. „Þetta eru bara eftirköstin eftir þetta. Virknin var svo rosalega intensíf, ef við slettum aðeins, og spennubreytingin á svæðinu svo mikil.“