Tveir skjálftar urðu við suð­vestur­enda Kleifar­vants í dag með tæp­lega klukku­stundar milli­bili. Sá fyrri varð um tuttugu mínútum fyrir há­degi og mældist 3,1 að stærð en sá seinni varð rétt fyrir hálf eitt og mældist 3,0. Báðir fundust þó víða á höfuð­borgar­svæðinu og fannst mörgum ef­laust sem þeir væru nokkuð stærri, eða svipaðir þeim sem fundust í hrinunni fyrir eld­gos.

Starfs­maður Veður­stofunnar segir að skjálftarnir hafi ein­fald­lega virst stærri vegna þess að þeir urðu nær höfuð­borgar­svæðinu en skjálftarnir í hrinunni fyrir gos. Hún segir Veður­stofuna ekki túlka skjálftana sem merki um nokkra breytingu á kviku­ganginum.

„Nei, þetta er náttúru­lega frekar langt frá. Báðir skjálftarnir urðu við Kleifar­vatn og kviku­gangurinn er í um tíu kíló­metra vestur af þessum stað,“ segir hún.

Þó gæti kviku­gangurinn vel verið söku­dólgurinn hér, þó engin hreyfing sé á honum. Sér­fræðingur Veður­stofunnar segir að áður en skjálfta­hrinan hófst þar í byrjun árs hafi gífur­leg spenna safnast upp í jörðinni. Þegar svo kviku­inn­hlaupið kom upp var það eins og „sand­kornið sem fyllir mælinn og hrinti öllu af stað“.

Þannig losnaði um gífur­lega spennu á skaganum í síðustu hrinu og telja menn nú að skjálftarnir í dag hafi verið svo­kallaðir gikk­s­kjálftar. Það er að segja eins konar eftir­skjálftar hrinunnar. „Þetta eru bara eftir­köstin eftir þetta. Virknin var svo rosa­lega intensíf, ef við slettum að­eins, og spennu­breytingin á svæðinu svo mikil.“