Lögreglan á Akureyri sektaði tvo einstaklinga í dag fyrir brot á sóttvarnalögum. Fékk hvor þeirra sekt upp á 100 þúsund krónur. Þetta staðfestir varðstjóri lögreglunnar á Akureyri í samtali við Fréttablaðið.

Lögreglan hefur þurft að hafa afskipti af smituðum einstaklingum og fólki sem á að vera í sóttkví.

„Almennt hefur fólk tekið fyrirmælum okkar vel,“ segir varðstjórinn og heldur áfram: „Stundum þarf að hnippa í suma aðila. Við sektuðum tvo í dag sem voru ekki að virða sóttkví þrátt fyrir tilmæli um að halda sig á sínum stað.“

Aðilarnir höfðu áður fengið viðvörun en fóru ekki eftir tilmælum lögreglu. „Yfirleitt reynum við að fara meðalhófsleiðina, að benda fólki á að halda sig heima, en því miður þá þurftum við að sekta tvo í dag.“

Farsóttarhús hefur verið opnað á ný á Akureyri en þar dvelja fimm Íslendingar bæði í sóttkví og einangrun.

Varðstjóri segir fólk almennt taka fyrirmælum vel. Stundum þurfi að minna fólk á að halda sig heima.
Fréttablaðið/Auðunn Níelsson