Mikill viðbúnaður er við verslunarmiðstöðina Emporia í Malmö í Svíþjóð vegna skotárásar sem hófst á sjötta tímanum þar. Minnst einn hefur verið handtekinn og er hann sagður vera undir átján ára aldri, en samkvæmt lögreglu er árásin yfirstaðin.

Samkvæmt sænska dagblaðinu Aftonbladet eru tveir særðir eftir árásina og hafa verið fluttir á sjúkrahús.

Árásamaðurinn á að hafa skotið fólk að handahófi, en samkvæmt Tv4 Nyheterna segja vitni að hann hafi hleypt af um tuttugu skotum.

Íslendingar láti vita af sér

Vísir náði sambandi við íslenska konu sem faldi sig í geymslu í verslunarmiðstöðinni á meðan árásin átti sér stað en hún faldi sig þar ásamt fimmtán konum og börnum. Lögreglan hefur að sögn Vísis nú hleypt þeim út.

Vitni greindu frá því á TV4 að um tuttugu skotum hafi verið hleypt af í verslunarmiðstöðinni.

Árásarmaðurinn hafi skotið fólk, að því er virtist, af handahófi og eru hinir særðu sagðir vera alvarlega slasaðir.

Sendiráð Íslands í Svíþjóð hefur biðlað til Íslendinga í Malmö að láta aðstandendur vita af sér vegna skotárásarinnar.