Ungur maður varð fyrir líkamsárás í Kópavogi í gærkvöldi. Hann sagði tvo stráka hafa ráðist á sig og fann til eymsla í andliti og var með kúlu á hnakka, en þeir sem réðust á hann voru farnir. Lögreglan fékk tilkynningu um árásina rétt fyrir hálf átta í gærkvöldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Rétt rúmlega fjögur í nótt var tilkynnt um innbrot í skóla í Hlíðahverfi, en ekkert annað er skráð um innbrotið.

Tilkynnt var um tvö innbrot í bíla í miðborginni með stuttu millibili í kringum hálf átta í gærkvöldi. Í báðum tilvikum hafði verðmætum verið stolið.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna í gærkvöldi á ólíkum stöðum í borginni. Annar þeirra er að auki grunaður um vörslu fíkniefna.

Um hálf átta var ótryggð bifreið stöðvuð í miðborginni og skráningarnúmer hennar klippt af.