Tveir prestar þjóðkirkjunnar hafa verið sendir í leyfi á meðan mál þeirra eru í vinnslu. Þeir voru sendir í leyfi síðastliðinn desember að beiðni teymis þjóðkirkjunnar, samkvæmt frétt Morgunblaðsins. Rúv fjallaði einnig um málið fyrr í mánuðinum.
Þjóðkirkjan vinnur úr niðurstöðum teymisins en hefur ekki aðkomu að störfum þess. Teymið var sett upp samkvæmt starfsreglum sem kveða á um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar.
Þrír fulltrúar eru í teyminu sem skipað var af Kirkjuráði: Bragi Björnsson, lögmaður og formaður teymisins, Ragna Björg Guðbrandsdóttir, félagsráðgjafi og varaformaður, og Karl Einarsson geðlæknir. Teymið veitir ekki upplýsingar um efni eða stöðu einstakra mála.