Fjórir lögreglumenn við Bandaríska þinghúsið, sem voru viðstaddir þegar múgur af stuðningsmönnum Donalds Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta, ruddust inn í þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn, hafa nú fallið fyrir eigin hendi en borgarlögreglan í Washington-borg greindi frá því í samtali við CNN að tveir lögreglumenn hafi framið sjálfsvíg í júlí.
Að því er kemur fram í frétt CNN um málið fannst lögregluþjónninn Kyle DeFreytag látinn þann 10. júlí síðastliðinn og þann 29. júlí fannst lögregluþjónninn Gunther Hashida látinn á heimili sínu. Tveir lögregluþjónar tóku eigin líf í janúar, skömmu eftir óeirðirnar, þeir Jeffrey Smith og Howard Liebengood. Allir nema Hashida höfðu starfað sem lögreglumenn í meira en áratug.
Auk þeirra lögreglumanna sem féllu fyrir eigin hendi lést einn lögreglumaður af sárum sínum sem hann hlaut við störf sín þann 6. janúar auk þess sem fjórir stuðningsmenn Trumps létust, flestir vegna troðnings, en ein var skotin til bana inni í þinghúsinu þar sem hún reyndi að komast að þingmönnum.
Glíma við langtímaafleiðingar
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur þegar lagt fram ákærur gegn 550 manns vegna óeirðanna og er málið til rannsóknar hjá sérstakri eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Fjórir lögreglumenn báru vitni sem hluta af rannsókn nefndarinnar í síðasta mánuði og ítrekuðu þar að það þyrfti að hafa í huga langtímaafleiðingar á lögreglumenn sem voru viðstaddir þann 6. janúar.
„Líkamlega ofbeldið sem við urðum fyrir var skelfilegt og átakanlegt,“ sagði aðstoðarvarðstjórinn Aquilino Gonell við þingmenn nefndarinnar í júlí og vísaði til þess að hann, ásamt öðrum lögreglumönnum, hafi orðið fyrir miklum barsmíðum af hálfu múgsins. Þá var lögreglumönnum einnig hótað lífláti fyrir það eitt að verja þinghúsið.
Donald Trump var ákærður til embættismissis fyrir að hvetja til uppreisnar en var að lokum sýknaður af öldungadeild Bandaríkjaþings skömmu eftir að Joe Biden tók við embætti. Frá þeim tíma hafa margir úr röðum Repúblikana, margir enn hliðhollir Trump, reynt að gera lítið úr óeirðunum. Nokkrir þingmenn hafa þó staðið með Demókrötum og fordæmt óeirðirnar.
The seriousness of the #January6th assault must not be minimized. The bipartisan @January6thCmte will pursue the truth. Efforts by some Republicans to deny justice and accountability are an insult to the brave officers who risked their lives that day. pic.twitter.com/IAofuvDtqW
— Nancy Pelosi (@SpeakerPelosi) July 27, 2021