Fjórir lög­reglu­menn við Banda­ríska þing­húsið, sem voru við­staddir þegar múgur af stuðnings­mönnum Donalds Trump, þá­verandi Banda­ríkja­for­seta, ruddust inn í þing­húsið þann 6. janúar síðast­liðinn, hafa nú fallið fyrir eigin hendi en borgar­lög­reglan í Was­hington-borg greindi frá því í sam­tali við CNN að tveir lög­reglu­menn hafi framið sjálfs­víg í júlí.

Að því er kemur fram í frétt CNN um málið fannst lög­reglu­þjónninn Kyle D­eFreytag látinn þann 10. júlí síðast­liðinn og þann 29. júlí fannst lög­reglu­þjónninn Gunt­her Has­hida látinn á heimili sínu. Tveir lög­reglu­þjónar tóku eigin líf í janúar, skömmu eftir ó­eirðirnar, þeir Jef­frey Smith og Howard Liebengood. Allir nema Has­hida höfðu starfað sem lög­reglu­menn í meira en ára­tug.

Auk þeirra lög­reglu­manna sem féllu fyrir eigin hendi lést einn lög­reglu­maður af sárum sínum sem hann hlaut við störf sín þann 6. janúar auk þess sem fjórir stuðnings­menn Trumps létust, flestir vegna troðnings, en ein var skotin til bana inni í þing­húsinu þar sem hún reyndi að komast að þing­mönnum.

Glíma við langtímaafleiðingar

Dóms­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna hefur þegar lagt fram á­kærur gegn 550 manns vegna ó­eirðanna og er málið til rann­sóknar hjá sér­stakri eftir­lits­nefnd full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings. Fjórir lög­reglu­menn báru vitni sem hluta af rann­sókn nefndarinnar í síðasta mánuði og í­trekuðu þar að það þyrfti að hafa í huga lang­tíma­af­leiðingar á lög­reglu­menn sem voru við­staddir þann 6. janúar.

„Líkam­lega of­beldið sem við urðum fyrir var skelfi­legt og á­takan­legt,“ sagði að­stoðar­varð­stjórinn Aqu­ilino Gonell við þing­menn nefndarinnar í júlí og vísaði til þess að hann, á­samt öðrum lög­reglu­mönnum, hafi orðið fyrir miklum bar­smíðum af hálfu múgsins. Þá var lög­reglu­mönnum einnig hótað líf­láti fyrir það eitt að verja þing­húsið.

Donald Trump var á­kærður til em­bættis­missis fyrir að hvetja til upp­reisnar en var að lokum sýknaður af öldunga­deild Banda­ríkja­þings skömmu eftir að Joe Biden tók við em­bætti. Frá þeim tíma hafa margir úr röðum Repúblikana, margir enn hlið­hollir Trump, reynt að gera lítið úr ó­eirðunum. Nokkrir þing­menn hafa þó staðið með Demó­krötum og for­dæmt ó­eirðirnar.