Tveir ein­staklingar létust vegna Co­vid-19 sjúk­dómsins um helgina. Már Kristjáns­son, yfir­læknir smit­sjúk­dóma­deildar á Land­spítala, stað­festir þetta í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Síðasta sólar­hring þá lögðust inn þrír og þrír voru út­skrifaðir, þar af lést einn ein­stak­lingur síðasta sólar­hring,“ segir Már sem kveðst ekki hafa upp­lýsingar um aldur hins látna.

Sólar­hringinn fyrir það hafði einn ein­stak­lingur látist með Co­vid og var sá á ní­ræðis­aldri.

Að sögn Más eru nú um 34 sjúk­lingar inni­liggjandi með Co­vid á legu­deildum og bráða­mót­töku, dreifðir um níu starfs­stöðvar Land­spítala.

Ekki stemning fyrir tak­mörkunum

Ljóst er að far­aldurinn er í vexti en sam­kvæmt tölu­legum upp­lýsingum á Co­vid.is er ný­gengi, innan­lands­smita 618,2. Már býst þó ekki við því að sam­komu­tak­markanir verði hertar: „Það held ég sé nú ó­skap­lega lítil stemning fyrir því.“

Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, tók í sama streng fyrir helgi þegar hann sagði að hann teldi ekki miklar líkur á tak­mörkunum á næstunni þótt hann gæti ekki úti­lokað það.

„Svo er bara spurning hvort það er við­eig­andi því ó­næmis­staðan er betri og það er búið að bólu­setja full af fólki og þetta af­brigði er mildara. En það er fólk að veikjast mjög hastar­lega, jafn­vel af þessu ó­míkron af­brigði, þeir sem eru óbólu­settir,“ segir Már.

Hann bætir því við að í ljósi þessa sé enn hvatning á að fólk láti bólu­setja sig en eins og staðan er nú eru 77 prósent Ís­lendinga full­bólu­settir.

Renni sitt skeið sem al­var­legur sjúk­dómur

Að sögn Más hefur gríðar­legur fjöldi fólks smitast af veirunni en sam­kvæmt tölum frá Co­vid.is er heildar­fjöldi stað­festra smita 191.079 frá febrúar 2020.

„Þannig það er mjög mikil örvun fyrir ó­næmis­kerfi lands­manna í gangi og þetta er það sem maður kannski býst við um kóróna­veiruna að hún muni svo­lítið renna sitt skeið sem al­var­legur sjúk­dómur. En þegar það er komið út­breitt ó­næmi í sam­fé­laginu þá muni þetta svona mildast,“ segir hann.

Erum við að sjá marga sem eru að smitast í annað og jafn­vel þriðja sinn?

„Ég hef rætt þetta við sótt­varna­lækni og þar hefur komið fram að það eru svona kannski um það bil 5 prósent eða svo. Það hefur ekkert breyst, þannig opin­berar tölur gefa það ekki til kynna.“
Már segir ó­míkron BA.5 af­brigðið enn vera ráðandi hér á landi sam­kvæmt nýjustu gögnum og að honum vitandi hafa ekki verið að greinast ný af­brigði undan­farið.

Fréttin hefur verið upp­færð.