Yfirvöld á Spáni greindu í gær frá fyrsta dauðsfallinu tengdu apabólu. Í dag bættist annað dauðsfall við en það eru talin vera fyrstu tvö dauðsföllin í Evrópu af völdum apabólu. Fréttastofan Reuters greinir frá þessu.
Frá því að apabólufaraldurinn byrjaði eru einungis þrjú dauðsföll skráð utan Afríku, tvö á Spáni og eitt í Brasilíu. 22. júlí tilkynnti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að fimm dauðsföll hefðu verið skráð í Afríku frá upphafi faraldursins.
Síðasta sunnudag lýsti stofnunin yfir alþjóðlegu neyðarástandi í heilbrigðismálum vegna útbreiðslu apabólu. Skilgreining ástandsins gerir stofnuninni kleift að koma af stað samhæfðum viðbragðsaðgerðum á alþjóðavísu.
Rúmlega fjögur þúsund tilfelli hafa verið staðfest af apabólu á Spáni. Af þeim 3.750 sem fylgst var með lögðust einungis 120 inn, en það eru einungis 3,2 prósent.