Yfir­völd á Spáni greindu í gær frá fyrsta dauðs­fallinu tengdu apa­bólu. Í dag bættist annað dauðs­fall við en það eru talin vera fyrstu tvö dauðs­föllin í Evrópu af völdum apa­bólu. Frétta­stofan Reu­ters greinir frá þessu.

Frá því að apa­bólufar­aldurinn byrjaði eru einungis þrjú dauðs­föll skráð utan Afríku, tvö á Spáni og eitt í Brasilíu. 22. júlí til­kynnti Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin að fimm dauðs­föll hefðu verið skráð í Afríku frá upp­hafi far­aldursins.

Síðasta sunnu­dag lýsti stofnunin yfir al­þjóð­legu neyðar­á­standi í heil­brigðis­málum vegna út­breiðslu apa­bólu. Skil­greining á­standsins gerir stofnuninni kleift að koma af stað sam­hæfðum við­bragðs­að­gerðum á al­þjóða­vísu.

Rúm­lega fjögur þúsund til­felli hafa verið stað­fest af apa­bólu á Spáni. Af þeim 3.750 sem fylgst var með lögðust einungis 120 inn, en það eru einungis 3,2 prósent.