Fyrir viku fæddist annar klónaði heimskautaúlfur sögunnar á tilraunastofu Sinogene-líftæknifyrirtækisins í Xuzhou í Kína. Sá fyrsti, Maya, fagnaði hundrað daga afmæli sínu á sama degi. Frá þessu var greint á fréttasíðu Global Times, sem birti upplýsingar um þetta í gær.

Fæðing nýja klónaða ylfingsins, sem hefur fengið nafnið Ha‘er, þykir sýna fram á að hægt verði að nota klónun til að halda uppi kynstofnum dýrategunda sem eru í útrýmingarhættu.

Staðgöngumóðir beggja klónanna var hundtík af beagle-kyni. Erfðaefni þeirra er úr karlúlfi frá skemmtigarðinum Harbin Polarland í Heilongjiang-héraði í norðausturhluta Kína. Ekki er gert ráð fyrir að Sinogene klóni fleiri úlfa heldur vill fyrirtækið snúa sér að öðrum dýrum.