Tveir Íslendingar eru sagðir vera alvarlega veikir á gjörgæslu í Las Palmas á Kanaríeyjum vegna COVID-19.

Einar Logi Einarsson sem hefur lengi verið búsettur á Kanaríeyjum og aðstoðað Íslendinga á svæðinu greinir frá þessu í Facebook-hópi Íslendinga á svæðinu og segist hafa þetta frá fyrstu hendi. Trölli.is sagðir fyrst frá málinu.

Segja einn sjúkling liggja á sjúkrahúsi

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, staðfestir að spítalanum hafi borist upplýsingar um innlögn eins sjúklings á gjörgæslu. Þó sé ekki útilokað að enn eigi eftir að berast upplýsingar um seinni sjúklinginn. Hún sagði engin áform vera um að flytja umræddan sjúkling til Íslands að svo stöddu.

Sveinn H Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir sömuleiðis að borgaraþjónustunni hafi borist tilkynning um innlögn eins sjúklings á spítala í Las Palmas.

Uppfært 25. september: Í gærkvöldi var leitað til borgaraþjónustunnar vegna annars Íslendings sem hafði þá verið lagður inn á spítala á Kanaríeyjum.

Búinn að vera innan við viku á svæðinu

Einar segir í samtali við Fréttablaðið að um sé að ræða tvo karlmenn yfir sextugt og að sá fyrri hafi verið fluttur á gjörgæslu síðasta föstudag. Hann hafi þá verið innan við viku á Gran Canaria og átt í nánum samskiptum við aðra Íslendinga á svæðinu.

Einar hefur ekki fengið staðfest hvenær seinni sjúklingurinn var lagður inn á gjörgæslu en segir að sýnataka hafi leitt í ljós að eiginkonur þeirra sem voru með í för séu ekki smitaðar af COVID-19.

Einar fullyrðir að þetta sé í fyrsta skipti sem Íslendingar séu lagðir þarna inn á gjörgæslu vegna COVID-19.

„Það var enginn í fyrstu bylgjunni og þetta eru fyrstu smitin sem ég frétti af núna. Ég frétti yfirleitt af flestum heilsufarsmálum þarna því ég hef verið að aðstoða fólk mikið í sambandi við heilsugæsluna,“ segir Einar sem starfaði lengi sem túlkur á heilsugæslu á Gran Canaria. Hann er nú staddur á Íslandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.