Tveir Ís­lendingar sem verið hafa í sótt­kví á Costa Adeje Palace hótelinu á Tenerife vegna kóróna­veirunnar, fá að yfir­gefa hótelið og fara heim til Ís­lands á sunnu­dag. Frá þessu var greint í há­degis­fréttum Bylgjunnar í dag.

Rúm­lega 130 hótel­gestir hafa verið í sótt­kví á hótelinu frá því að fjórir hótel­gestir greindust með veiruna í síðustu vikuna. Þar af eru tíu Ís­lendingar. Fólkið átti flug til Ís­lands í dag á vegum ferða­skrif­stofunnar vita en því hefur verið frestað.

Átta ný til­felli kóróna­veirunnar greindust á Norður­löndunum í gær. Fimm í Sví­þjóð og þrjú ný í Noregi. Smitaðir höfðu allir ferðast til staða þar sem vitað er að smit hafi greinst. Því er um að ræða alls sjö smit í Sví­þjóð, fjögur í Noregi og eitt í Dan­mörku.

Enn sem komið er hefur kóróna­veiran ekki greinst á Ís­landi. Komið hefur fram að um leið og slíkt kemur upp verði það til­kynnt af hálfu Em­bættis land­læknis og sótt­varna­læknis með frétta­til­kynningu og blaða­manna­fundi.

Tekin voru 46 sýni í gær og reyndust þau öll nei­kvæð. Boðað hefur verið til upp­lýsinga­fundar af hálfu al­manna­varna klukkan 15:30 í dag þar sem farið verður yfir stöðuna. Fimm manns eru nú í sótt­kví á Ísa­firði og þó nokkrir í Reykja­vík. Hefur Bylgjan eftir Ólafi Guð­laugs­syni, yfir­lækni á sýkinga­varna­deild Land­spítalans, að mikið álag hafi verið á deildinni undan­farna daga.