Í gærkvöldi greindust tveir íbúar með Covid-19 til viðbótar á hjúkrunarheimilinu Eiri og þar með eru þrír íbúar í einangrun frá 2. hæð suður í A-húsi Eirar. Íbúarnir voru báðir í sóttkví. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eiri.

Í síðustu viku var greint frá því að starfsmaður Eirar hafi greinst með Covid-19, tveimur dögum síðar kom í ljós að einn íbúi hafi einnig greinst með veiruna. Sá smitaði var settur í einangrun og var einkennalaus.

Vegna þessa hefur verið lokað fyrir heimsóknum gesta til þriðjudagsins 6. október.

Covid-deild hefur verið sett á laggirnar innanhúss og munu ofangreindir íbúar flytjast þangað.

Aðstandendum hefur öllum verið tilkynnt um aðstæður.