Tveir einstaklingar voru handteknir vegna líkamsárásar í Háaleitis- og Bústaðarhverfi rétt fyrir þrjúleytið í nótt eftir að lögreglunni var tilkynt um líkamsárás klukkan 02:42 í nótt.

Kemur þetta fram í dagbók lögreglu. Einstaklingarnir voru vistaðir í fangageymslu vegna rannsókn málsins.

Alls voru þrír stöðvaðir undir stýri vegna gruns um ölvunarakstur sem voru handteknir og fluttir á lögreglustöð. Þeim var sleppt eftir sýnatöku.

Þá var kvartað undan einstaklingi sem var með ógnandi tilburði við dyraverði í miðbænum eftir miðnætti en sá einstaklingur var farinn þegar lögreglan mætti á svæðið.

Fyrr um daginn var tilkynnt um ölvaðan og ósjálfbjarga aðila á umferðareyju í Hlíðunum. Aðilinn farinn þegar lögreglu bar að.

Síðar um kvöldið fékk lögreglan sambærilega ábendingu um einstakling sem hefði sofnað í anddyri fjölbýlishúss. Sá hinn sami var farinn þegar lögreglan kom á svæðið.

Þá fékk lögreglan ábendingu um umferðaróhapp í Árbænum þar sem bifreið hafði verið ekið á vegg.

Ökumaðurinn var með minniháttar meiðsli og ætlaði sjálfur að leita sér aðstoðar á slysadeild en bíllinn var fjarlægður með dráttarbifreið.