Í morgun voru tveir menn handteknir vegna andláts í Þingholtunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu, en rannsókn málsins er í fullum gangi.

„Á sjöunda tímanum í morgun var lögreglan kölluð að húsi í Þingholtunum. En þaðan barst kvörtun um hávaða og háreysti frá íbúð í húsinu.“ segir í tilkynningu lögreglu.

Fram kemur að í íbúðinni hafi verið þrír menn, og einn þeirra meðvitundarlaus og með litlum lífsmörkum.

„Sjúkrabíll var þegar í stað kallaður til. Lögregla hóf strax endurlífgun sem hélt áfram þegar sjúkraflutningamenn komu á vettvang. Stuttu seinna var maðurinn úrskurðaður látinn á bráðamóttöku Landspítalans.“

Líkt og áður segir voru tveir menn handteknir á staðnum og fluttir í fangageymslu.

RÚV greinir frá því að andlátið hafi verið við Grundarstíg. Nágrannar hafi áður orðið varir við hávaða úr íbúðinni, en í þetta skipti vöknuðu þeir við öskur og dynki og ákváðu að gera lögreglu viðvart.