Einn gisti fangageymslu lögreglunnar í Vestmannaeyjum síðastliðna nótt vegna rannsóknar á fíkniefnamáli. Að sögn lögreglu er hann grunaður um sölu fíkniefna en á honum fannst talsvert magn af hvítu efni sem talið er vera kókaín auk mikils magns af lyfseðilsskyldu lyfi.

Alls voru tveir aðilar handteknir síðastliðna nótt en á hinum fundust lyfseðilsskyld lyf. Sá var látinn laus eftir skýrslutöku. Talsvert magn af peningum fannst á báðum aðilum, er segir í tilkynningu frá lögreglu.

Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt og var töluvert um ölvun í bænum. Mikið var um gleðskap í heimahúsum og görðum sem þurfti að hafa afskipt af, að sögn lögreglu. Að öðru leyti hafi skemmtanahald helgarinnar farið vel fram.

Blendnar tilfinningar

Verslunarmannahelgin hefur verið með óvenjulegu sniði í Vestmannaeyjum en þetta er í fyrsta skipti í 105 ár sem engir viðburðir eru haldnir í Eyjum í tengslum við Þjóðhátíð.

Jón Bragi Arnars­son, varð­stjóri hjá lög­reglunni í Vest­manna­eyjum, sagði blendnar tilfinningar fylgja því að standa vaktina þetta árið.

„Þetta er skrítið, það er ekki hægt að segja annað," sagði hann í samtali við Fréttablaðið í gær.

Lítið væri af gestum í Vestmannaeyjum fyrir utan nokkra erlenda ferðamenn og nánast enginn á tjaldstæðinu sem sé alla jafna fullt á þessum árstíma.

Skotur á hátíðarhöldum hafi þó leitt til þess að færri mál hafi ratað á borð lögreglu um verslunarmannahelgina samanborið við síðustu ár.