Tveir menn voru handteknir í Namibíu í gærkvöldi fyrir að reyna að hindra yfirstandandi rannsókn yfirvalda á spillingarmálinu sem er meðal annars tengt kvótakaupum Samherja þar í landi.

Namibíski fjölmiðillinn The Namibian greinir frá þessu í dag. Talsmaður lögreglunnar staðfesti handtökurnar við The Namibian og sagði að mennirnir tveir yrðu ákærðir fyrir að reyna að hindra rannsóknina.

Gögn tengd rannsókninni á meintum mútum Samherja

Greint er frá því að mennirnir hafi verið gripnir í miðjum klíðum við að safna saman skjölum, hörðum diskum, minniskubbum og skotfærum í ótilgreindu húsnæði.

Skjölin sem mennirnir reyndu að komast í burtu með voru tengd rannsókn yfirvalda á mútugreiðslunum.

Bern­hard Esau, fyrr­verandi sjávar­út­vegs­ráð­herra Namibíu, Sacky Shang­hala, fyrr­verandi dóms­mála­ráð­herra og James Hatuiku­lipi, fyrr­verandi stjórnar­for­maður Fishcor, voru auk þriggja annarra á­kærðir fyrir spillingu og peninga­þvætti í byrjun þessa mánaðar.

Fimm þeirra hafi verið kærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, eða því sem nemur 860 milljónum ís­lenskra króna, fyrir að tryggja fé­lögum tengdum Sam­herja kvóta í landinu. Þeir voru allir úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 20. febrúar næst­komandi.