Tveir voru handteknir til viðbótar í dag í tengslum við morðið í Rauðagerði. Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið. Lögregla hefur ekki tekið ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald á þeim aðilum.

Alls eru níu í haldi vegna rannsóknar lögreglu og búið að úrskurða sjö í gæsluvarðhald. Sá fyrsti var handtekinn í heimahúsi í Garðabæ daginn eftir morðið og rennur út gæsluvarðhald yfir þeim aðila á morgun. Verður tekin ákvörðun í kvöld hvort farið verði fram á framlengingu á gæsluvarðahaldinu.

Á annan tug húsleita

Lögreglan hefur sinnt yfirheyrslum og framkvæmt á annan tug húsleita vegna málsins. „Við höfum verið að leggja áherslu á yfirheyrslur, úrvinnslu gagna og húsleitir í dag. Þær eru komnar á annan tug. Ég er ekki að bulla þegar ég segi að þetta sé umfangsmikið,“ segir Margeir.

Maðurinn sem var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði aðfaranótt Valentínusardags hét Armando Beqirai. Hann var fæddur árið 1988 og lætur eftir sig eiginkonu og eitt barn. Armando starfaði við öryggisgæslu og kom að rekstri fyrirtækisins Top Guard í félagi við nokkra aðra menn. Þeir önnuðust, meðal annars, dyravörslu á skemmtistöðum í Reykjavík.

Til vinstri: Margeir Sveinsson hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu.
Samsett mynd. Stefán