Tveir dómarar við Hæstarétt hafa óskað eftir lausn frá embætti sínu. Dómararnir eru þeir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, starfandi dómsmálaráðherra, tilkynnti um þetta á ríkisstjórnarfundi í morgun. Þetta staðfestir dómsmálaráðuneytið við Fréttablaðið.

Markús og Viðar munu láta af störfum þann 1. október en samhliða því verður dómurum við Hæstarétt fækkað úr átta í sjö, eins og hefur staðið til frá því að Landsrétti var komið á. Því verður aðeins ein staða dómara auglýst til umsóknar á næstunni. Þeir hafa báðir náð 65 ára aldri, sem er eftirlaunaaldur hæstaréttardómara. Helmingur starfandi dómara við réttinn hafa náð þeim aldri.

Markús hefur verið dómari við Hæstarétt í 25 ár, frá því árið 1994, lengst allra starfandi dómara við réttinn. Hann var varaforseti Hæstaréttar árin 2002 og 2003 og forseti Hæstaréttar árin 2004 og 2005 og svo aftur frá 2012 til 2016. Hann var prófessor í réttarfari við lagadeild Háskóla Íslands árin 1988 til 1994.

Viðar var skipaður dómari við Hæstarétt árið 2010. Hann var varaforseti réttarins frá 2012 til 2016. Viðar var prófessor í skaðabótarétti við lagadeild Háskóla Íslands árin 1996 til 2010.