Tveir voru fluttir á gjörgæslu eftir að bíll fór fram af höfninni í Hafnarfirði í gærkvöldi og telst ástand þeirra alvarlegt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

Þrír voru í bílnum og var sá þriðji einnig fluttur á Landspítalann, þar sem hann er enn. Líðan hans er sögð eftir atvikum.

Lögreglunni barst tilkynning um klukkan níu í gærkvöldi, um að bíll hefði farið í sjóinn. Mikill viðbúnaður var á vettvangi og meðal annars voru kafarar frá séraðgerðadeild Landhelgisgæslunnar kallaðir út.

Þá veitti Rauði krossin þeim sem á þurftu að halda sálrænan stuðning í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í gærkvöldi.

Lögreglan veitir ekki frekari upplýsingar að svo stöddu.