Tveir íslenskir fótboltamenn eru til rannsóknar hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna meintrar hópnauðgunar eftir landsleik Íslands og Danmerkur í fótbolta karla í Kaupmannahöfn árið 2010. Þetta hefur Fréttablaðið eftir öruggum heimildum.

Aron Einar Gunnarsson var ekki valinn í leikmannahóp íslenska landsliðsins fyrir komandi leiki liðsins í undankeppni HM 2022 í gær. Aron Einar sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem hann leiddi að því að líkum að stjórn knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, hafi bannað þjálfurum íslenska liðsins að velja sig í hópinn.

Fram kemur í fundargerð stjórnar KSÍ frá fundi stjórnarinnar sem haldinn var 28. september síðastliðinn að stjórninni hafi borist tölvupóstur 27. september í nafni Öfga ásamt viðhengi. Ekki kemur fram í fundargerðinni hvert efni tölvupóstsins hafi verið en erindið var fært í trúnaðarbók.

„Rannsókn er hafin að nýju á meintu kynferðisbroti sem þolandi telur sig hafa orðið fyrir í Kaupmannahöfn árið 2010," segir Ævar Pálmi Pálmason, yfir­maður kyn­ferðis­brotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Fréttablaðið.

Ævar Pálmi vildi ekki staðfesta hvort sakborningar væru einn eða tveir, hvers eðlis meint brot er eða á hvaða stigi rannsóknin er eins og sakir standa.