Gert er ráð fyrir að greidd verði atkvæði síðar í þessari viku um þau lagafrumvörp sem mælt var fyrir í gær. Efni þessara frumvarpa eru efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar, fjáraukalög, borgaralegar skyldur starfsmanna opinberra aðila og afturköllun ákvörðunar um sameiningu þriggja sveitarfélaga.

„Vegna þess um hve stóra lagabálka er að ræða mátum við það svo að það yrði að gefa þingnefndum einhvern tíma fyrir þessi mál og stefnt er að því að greiða atkvæði um þau á fimmtudaginn,“ segir Steingrímur J Sigfússon forseti Alþingis. Hann segist ekki eiga von á fleiri þingmálum frá ríkisstjórninni í vikunni. „Það væri þá ekki nema ef eitthvað nýtt kæmi upp.“ Segir Steingrímur.

Samráð við hagsmunaaðila um þessar lagabreytingar verður í lágmarki þótt öllum sé velkomið að senda nefndum umsagnir eins og áður. Nefndirnar leiti til helstu aðila á þeim málefnasviðum sem frumvörpin taka til og fundað verði með gestum gegnum fjarfundabúnað. Nefndamenn sjálfir taka einnig í auknum mæli þátt í nefndastarfi gegnum fjarfundabúnað en á þessari stundu er fundað í tveimur fundarherbergjum sem hafa verið stækkuð til að unnt sé að virða fjarlægðarreglur.

Steingrímur_181203_153308.jpg

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis

Aðspurður segir Steingrímur að samstarf við þingflokka stjórnarandstöðunnar hafi gengið vel. „Það hefur gengið mjög vel og tekið vel í allar óskir.“ Á þetta hafi til dæmis reynt í gær þegar fallist var á ósk um taka mætti frumvarp dómsmálaráðherra um borgaralegar skyldur opinberra starfsmanna, á dagskrá þrátt fyrir að of stuttur tími hafi liðið frá framlagningu þess. „Það er ágætt dæmi um að menn eru að hjálpast að.“

Steingrímur segir að venju fremur fámennt í þinghúsinu þessa dagana þótt álag sé á þinginu. Þingmenn vinni heiman frá sér eins og mögulegt er.

„Auðvitað væri ágætt að umræður í þingsal væru sem stystar til að stilla samverunni í hóf, en það er allt innan hóflegra marka meðan það er einn frá hverjum þingflokki að taka þátt,“ segir Steingrímur.

Hann er sjálfur á bakvakt og vinnur heiman frá sér.

„Við erum tveir heima núna að minnsta kosti fyrri part vikunnar og ég held við höldum okkur við að það verði alltaf geymdir tveir forsetar í góðu skjóli til að lágmarka áhættu á því forsetahópurinn heltist allur úr lestinni í einu,“ segir Steingrímur.

Mál sem eru til meðferðar í þinginu

Frumvarp fjármálaráðherra um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins og frumvarp til fjáraukalaga 2020 vegna þeirra breytinga sem aðgerðirnar og staðan í þjóðfélaginu hafa á fjárlög yfirstandandi árs. Ráðherra sagði í umræðum á þingi í gær að líklega yrði að leggja annað fjáraukalagafrumvarp fram síðar á árinu vegna óvissu á þessari stundu um hver áhrifin verða.

Frumvarp dómsmálaráðherra um heimild opinberra aðila til að fela starfsmönnum tímabundið breyttar starfsskyldur til þess að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Kveðið er á um að starfsmennirnir haldi óbreyttum launakjörum við slíkar aðstæður.

Frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um breytingar á sveitarstjórnarlögum til að afturkalla ákörðun um sameiningu þriggja sveitarfélaga á Austfjörðum.