Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tvær tilkynningar um menn sem voru fluttir gegn vilja sínum í gær. Annar þeirra var að aka í Borgartúni þegar fólk settist upp í bíl hans til að ræna af honum fé og lyfjum en hinn var fluttur í Heiðmörk og beittur ofbeldi þar. Bæði málin eru enn í rannsókn. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu.

Klukkan fimm í gær fékk lögreglan tilkynningu um frelsissviptingu og rán. Maður var að aka í Borgartúni þegar tvær manneskjur settust inn í bíl hans. Kona settist í framsætið og maður í aftursæti. Maðurinn mun hafa tekið upp eggvopn og hótað manninum. Konan fór síðan úr bifreiðinni og manninum var sagt að aka á eftir bifreið hennar. Farið var í Grafarholt til að ná peningum árásarþola úr hraðbanka og síðan var honum sagt að aka heim til sín, þar sem ofbeldismaðurinn stal lyfjum og fleiru. Þegar þeir voru á útleið náði maðurinn að loka útihurðinni á ofbeldismanninn og hringja í lögreglu. Málið er nú í rannsókn.

Rétt fyrir hálfsex barst svo tilkynning um líkamsárás í Heiðmörk við Elliðavatn. Ungur maður segist hafa verið fluttur þangað og hann barinn með kylfu og úðavopni beitt á hann. Svo var hann látinn vaða út í vatnið og var orðinn kaldur þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Hann var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild. Málið er í rannsókn.

Rétt eftir hálfátta kom tilkynning frá hóteli við Laugaveg um mann í annarlegu ástandi sem var með ónæði og hafði stolið söfnunarbauk sem hann var að reyna að opna. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands, en hann lét mjög illa og reyndi að sparka frá sér. Við átökin fékk lögreglukona munnvatn eða hráka í andlitið frá manninum, en samkvæmt tilkynningu lögreglu er hann skráður sýktur.

Um hálfþrjú var tilkynnt um mann sem var að brjóta rúðu í bíl í Vesturbænum. Hann sat í bílnum þegar lögregla kom á vettvang og sagði að það væru engin verðmæti í bílnum og sér væri kalt. Hann var með óvarinn hníf í vasanum. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu en hann var þegar eftirlýstur vegna rannsóknar á öðrum málum.

Um hálfsjö var ekið á kyrrstæða bifreið á Laugavegi. Tjónavaldur er grunaður um ölvun við akstur, akstur án réttinda og brot á vopnalögum. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Rétt eftir eitt í nótt var bifreið mæld á of miklum hraða á Kringlumýrarbraut. Bíllinn var svo stoppaður í Kópavogi og ökumaðurinn viðurkenndi að hafa ítrekað ekið sviptur ökuréttindum og er grunaður um ölvun við akstur.

Þrír aðrir ökumenn voru teknir fyrir akstur undir áhrifum í gærkvöldi, einn þeirra hafði verið sviptur réttindum og er grunaður um vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum.