Sam­fylking er há­stökkvari nýrrar könnunar Prósents um fylgi stjórn­mála­flokkanna. Píratar tapa mestu og Fram­sóknar­flokkurinn dalar einnig.

Sjálf­stæðis­flokkur og Sam­fylking bæta við sig fylgi og mælast nú tveir af­gerandi stærstu flokkarnir. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents á fylgi þeirra flokka sem bjóða fram til Al­þingis. Fram­sóknar­flokkurinn og Píratar gefa eftir frá fyrri könnun.

Sam­fylkingin er há­stökkvarinn að þessu sinni og bætir við sig 5,6 prósentum. Mælist með 19,1 prósent en fékk 13,5 prósent í síðustu könnun Prósents, sem gerð var í júní. Eins og Frétta­blaðið greindi frá í gær mælist Krist­rún Frosta­dóttir, nýr for­maður flokksins, nú sá stjórn­mála­leið­togi sem lands­menn bera mest traust til. Það eru 25 prósent svar­enda.

Sjálf­stæðis­flokkurinn mælist með 21,2 prósenta fylgi. Flokkurinn hefur verið rísandi í könnunum Prósents á árinu. Í apríl mældist hann með 17,9 prósenta fylgi og 18,2 í júní. Nú hefur flokkurinn rofið 20 prósenta múrinn og mælist stærsti flokkur landsins. Sjálf­stæðis­flokkurinn hefur um­tals­vert meira fylgi en Bjarni Bene­dikts­son for­maður, sem rúm­lega 15 prósent svar­enda treysta best.

Sá flokkur sem tapar mestu fylgi milli kannana eru Píratar, það er 5,8 prósentum. Píratar mælast nú með 11,8 prósenta fylgi en höfðu 17,6 prósent í júní og voru næst­stærsti flokkurinn.

Fram­sóknar­flokkurinn, sem unnið hefur stór­sigra í síðustu al­þingis- og sveitar­stjórnar­kosningum, tapar 2,7 prósentum milli kannana. Hann mælist nú með 14,6 prósent og er þriðji stærsti flokkurinn.

Við­reisn bætir hins vegar við sig 2,7 prósentum. Mælist með 10,6 prósent nú en hafði 7,9 í júní.

Mynd/Prósent

Fylgi Vinstri grænna hefur verið sígandi á árinu. Fylgið mælist nú slétt 8 prósent, en var 9 í júní og 9,6 í apríl. Eins og kom fram í könnuninni í gær er Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra ekki lengur sá stjórn­mála­leið­togi sem kjós­endur bera mest traust til en hún hafði á­berandi for­skot á aðra fyrir ári síðan.

Flokkur fólksins mælist með 6,4 prósent, Sósíal­ista­flokkurinn með 4,2 sem og Mið­flokkurinn. Ef þetta væru niður­stöður kosninga myndi stór hluti at­kvæða falla niður dauður í ljósi þess að þröskuldurinn til að hljóta jöfnunar­þing­sæti er 5 prósent.

Saman­lagt mælast stjórnar­flokkarnir þrír með 43,8 prósenta fylgi, sem er ögn minna fylgi en í síðustu könnun. Sé fylgið reiknað í þing­manna­fjölda er stjórnin fallin með 30 þing­menn á móti 33.

Sjálf­stæðis­flokkurinn myndi fá 15 þing­menn, Sam­fylking 14, Fram­sóknar­flokkur 10, Píratar 8, Við­reisn 7, Vinstri græn 5 og Flokkur fólksins 4 menn kjörna.

Til­tölu­lega lítill munur er á svörum milli kynja. Sjálf­stæðis­flokkurinn, Píratar, Við­reisn og Mið­flokkurinn mælast ögn stærri hjá körlum en konum. Sam­fylkingin, Fram­sóknar­flokkurinn, Vinstri græn, Flokkur fólksins og Sósíal­ista­flokkurinn höfða meira til kvenna.

Þegar kemur að aldurs­dreifingu fylgisins þá er það nokkuð jafnt hjá Sjálf­stæðis­mönnum. Sam­fylkingin nýtur mests fylgis hjá eldri kjós­endum en Fram­sóknar­flokkurinn og Píratar hjá kjós­endum undir 25 ára aldri.

Fram­sóknar­flokkurinn mælist stærsti flokkurinn á lands­byggðinni, með 23 prósenta fylgi, en hefur að­eins 10 prósent á höfuð­borgar­svæðinu. Píratar hafa hins vegar þre­falt meira fylgi á höfuð­borgar­svæðinu en á lands­byggðinni.

Könnunin var net­könnun fram­kvæmd 14. til 17. nóvember. Úr­takið var 2.600 og svar­hlut­fallið 51,3 prósent.