Breska lögreglan hefur gefið upp nöfn þeirra 39 einstaklinga sem fundust látnir í vöruflutningabíl í Essex á Englandi þann 23. október. Meðal látinna eru tíu ungmenni, þar af tveir fimmtán ára gamlir drengir. BBC greinir frá.

Rúmar tvær vikur hefur tekið að bera kennsl á hin látnu. Aðstoðarlögreglustjórinn í Essex, Tim Smith, sagði lögregluna hafa unnið hörðum höndum að því að bera á þau kennsl. „Við teljum það mikilvægan þátt í rannsókn málsins að veita áhyggjufullum fjölskyldum fórnarlambanna svör. Það hefur verið í forgangi hjá okkur að bera kennsl á hin látnu,“ segir Tim.

Fingraför, DNA-sýni, tannlæknaskýrslur og sérkenni líkt og húðflúr og ör voru notuð til að bera kennsl á fórnarlömbin.

Fólkið var allt frá Víetnam og í leit að betra lífi á Englandi. Hin 26 ára gamla Pham Thi Tra My sendi föður sínum smáskilaboð nóttina áður en fólkið fannst þar sem hún sagði honum að hún næði ekki andanum og að „ferðin hefði mistekist“.

Fjöldamargir hafa verið handteknir í tengslum við málið. Einn á Englandi, annar á Írlandi og ellefu í Víetnam. Tveggja írskra manna er enn leitað.