Björgunarsveitin kom tveimur ferðalöngum til aðstoðar þegar þeir voru að ferðast á gönguskíðum að Fjallabaki. Þrátt fyrir að vera kaldir og blautir þá voru ferðalangarnir þokkalega á sig komin.
Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að tjald ferðalanganna hafi gefið sig í því veðri sem geisaði á þessum slóðum og voru þeir orðnir blautir og kaldir.
Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli barst neyðarkallið og fóru á fjórum bílum og vélsleða til að aðstoða fólkið. Staðsetning þeirra var rétt norðan Hnausapolls, skammt frá Landmannalaugum.
Ferðalangarnir höfðu verið á göngu í tíu daga og nánast komnir á leiðarenda, þegar veðrið fór að versna. Að sögn Jón Þórs Víglundarson, upplýsingafulltrúa Landsbjargar var því happ að fólkið hafi ekki dregið að óska aðstoðar, þar sem veðrið versnaði hratt og skyggni minnkaði með talsverðri snjókomu.
Ferðalangarnir voru þokkalega á sig komin en voru fegin að komast í hlýjan bíl björgunarsveitar og að komast í þurr föt.
