Norræna kom til Seyðisfjarðar í gær með 634 farþega um borð. Tveir farþeganna reyndust smitaðir af kórónuveirunni.

Íslenskur farþegi vissi af smiti er hann kom um borð Í Danmörku en hinn einstaklingurinn greindist með staðfest smit, í kjölfar skimunar um borð.

Íslendingurinn sem kom um borð í Norrænu í Hirtshals fékk þau tíðindi í kjölfar skimunar sem hann hafði farið í áður í Danmörku, að hann væri smitaður af COVID-19. Hann var því einangraður í klefa sínum alla leiðina og hélt til síns heima í einangrun við komu til Seyðisfjarðar. Farþeginn var ekki í neinum samskiptum við aðra farþega eða áhafnarmeðlimi um borð, né við komu til landsins. Við aðra sýnatöku sem var tekin á Seyðisfirði kom í ljós að hann var með gamalt smit og því ekki smitandi.

Þá greindist einn farþegi með staðfest smit, í kjölfar skimunar um borð í Norrænu. Farþeginn er í einangrun og einnig er verið að rannsaka smitið. Ekki er vitað hvort um sé að ræða virkt eða gamalt smit.

Um 400 fóru í sýnatöku

Af 634 farþegum sem komu til landsins með Norrænu í gær þurftu ríflega 400 að fara í sýnatöku.

Um þriðjungur sýna var tekinn um borð meðan Norræna var á leið til hafnar í Seyðisfirði af teymi á vegum Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) sem var um borð í skipinu.

Þá var farþegum leiðbeint við rafræna skráningu sem er forsenda sýnatökunnar.

Á hafnarbakkanum biðu starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar og starfsmenn HSA sem aðstoðuðu við skimunina.

Sýnatakan gekk vel fyrir sig og tók um 45 mínútur. Norræna hélt úr höfn laust fyrir klukkan eitt eftir að hafa verið við höfn í tæplega tvær klukkustundir.

Enn er verið að vinna að lausn við sýnatöku í Norrænu. Hugsanlega verður teymi sent frá Reykjavík til Færeyja fyrir næstu ferð til að framkvæma sýnatöku um borð á síðari hluta siglingarinnar. Henni verði þá lokið þegar ferjan kemur til hafnar.