Tveir breskir táningar hafa verið hand­teknir í Eng­landi í tengslum við gísla­töku í safnaðar­húsi Gyðinga í Texas á laugar­dag. Gísla­töku­maðurinn, Malik Fai­sal Akram, var breskur ríkis­borgari en lög­reglan skaut hann til bana á vett­vangi.

Táningarnir voru hand­teknir í suður­hluta Manchester á sunnu­dags­kvöldið en ekkert hefur verið gefið upp um ná­kvæman aldur þeirra eða kyn.

Lög­reglan í Manchester hefur greint frá því að þau vinni nú náið með bæði lög­gæslu­aðilum í næsta ná­grenni og lög­reglunni í Banda­ríkjunum. Hún hand­tók táningana í rann­sókn sinni og eru þeir í haldi lög­reglunnar þar til þeir verða yfir­heyrðir.

Gísla­töku­maðurinn, Akram, kom til Banda­ríkjanna fyrir tveimur vikum. Bróðir hans stað­festi and­lát hans í til­kynningu í gær og sagði bróður sinn hafa glímt við geð­ræn vanda­mál. Hann bað fórnar­lömb gísla­tökunnar af­sökunar.

Gísla­takan hófst um klukkan ellefu að morgni laugar­dags en Akram fékk að­gang að húsinu með því að segjast vera heimilis­laus. Allir gíslarnir komust út ó­meiddir.