Tveir breskir táningar hafa verið handteknir í Englandi í tengslum við gíslatöku í safnaðarhúsi Gyðinga í Texas á laugardag. Gíslatökumaðurinn, Malik Faisal Akram, var breskur ríkisborgari en lögreglan skaut hann til bana á vettvangi.
Táningarnir voru handteknir í suðurhluta Manchester á sunnudagskvöldið en ekkert hefur verið gefið upp um nákvæman aldur þeirra eða kyn.
Lögreglan í Manchester hefur greint frá því að þau vinni nú náið með bæði löggæsluaðilum í næsta nágrenni og lögreglunni í Bandaríkjunum. Hún handtók táningana í rannsókn sinni og eru þeir í haldi lögreglunnar þar til þeir verða yfirheyrðir.
Gíslatökumaðurinn, Akram, kom til Bandaríkjanna fyrir tveimur vikum. Bróðir hans staðfesti andlát hans í tilkynningu í gær og sagði bróður sinn hafa glímt við geðræn vandamál. Hann bað fórnarlömb gíslatökunnar afsökunar.
Gíslatakan hófst um klukkan ellefu að morgni laugardags en Akram fékk aðgang að húsinu með því að segjast vera heimilislaus. Allir gíslarnir komust út ómeiddir.