Tveir bólusettir einstaklingar greindust með veiruna um helgina en báðir voru utan sóttkvíar við greiningu. Að því er kemur fram í tilkynningu almannavarna er uppruni smitana enn óþekktur en smitrakning stendur yfir.

Einhver hópur fólks hefur verið sendur í sóttkví vegna innanlandssmitanna en ekki liggur fyrir hversu margir eru í þeim hóp. Gert er ráð fyrir að raðgreining sýna muni taka einhverja daga.

Á Instagram síðu skemmtistaðarins Bankastræti Club kemur fram að smit hafi komið upp utan sóttkvíar á skemmtanalífinu um helgina og að smitið megi meðal annars rekja á staðinn. Gestir staðarins eru enn fremur hvattir til að fara í sýnatöku.

„Almannavarnir hvetja alla til að setja upp eða uppfæra Rakningarappið í símanum. Appið getur hjálpað rakningarteyminu að rekja smit og má segja að það sé núna í lykilhlutverki, þar sem engar samkomutakmarkanir eru í gildi á Íslandi,“ segir í tilkynningu.

„Höldum áfram að fara varlega og förum í sýnatöku ef við verðum vör við einkenni, bæði bólusettir einstaklingar og óbólusettir.“

Til viðbótar við smitin innanlands greindist einn ferðamaður með veiruna á leið úr landi.

Upplýsingasíðan covid.is er aðeins uppfærð á fimmtudögum og því liggur ekki fyrir hversu margir eru nú í einangrun með virkt smit eða í sóttkví.

Fréttin hefur verið uppfærð.