Örn Úlfar Sæ­vars­son, hug­mynda­smiður á aug­lýsinga­stofunni ENNEMM og spurninga­höfundur, hvetur fólk til að hugsa vel um húðina og fara reglu­lega í tékk hjá húð­lækni. Í vikunni voru fjar­lægðir af honum tveir blettir sem reyndust vera grunn­frumu­krabba­mein á byrjunar­stigi.

Örn Úlfar opnaði sig fyrst um þetta á Twitter-síðu sinni þar sem hann hvatti fólk til að fara reglu­lega í tékk til húð­læknis.

„Málið er að fyrir löngu síðan var ég með sár upp við eyrað sem greri aldrei al­menni­lega. Ég pældi lítið í þessu þá en sárið var alltaf að rifna upp. Svo hvatti konan mín mig til að fara til húð­læknis og láta tékka á þessu,“ segir Örn en þetta var árið 2003 eða 2004.

Það er skemmst frá því að segja að grunn­frumu­krabba­mein greindist sem var fjar­lægt með að­gerð. Örn fór í reglu­bundið eftir­lit eftir að­gerðina á sínum tíma, en, eins og hann segir sjálfur þá vill tíminn stundum líða dá­lítið hratt.

„Mér fannst eins og ég hefði farið ár­lega til húð­læknis. Svo fór ég með dóttur mína til læknis í haust út af öðru og spurði hvort ég ætti ekki að fara koma aftur, hvort það væri ekki komið ár síðan ég kom síðast,“ segir Örn en þá kom á daginn að fjögur ár voru liðin frá síðustu heim­sókn.

„Þá komu í ljós tveir litlir blettir sem voru á þessu stigi,“ segir Örn en blettirnir voru miklu minni en í fyrra skiptið og ekki enn orðnir að sári. Ef þeir hefðu verið látnir ó­á­reittir hefðu þeir að líkindum þróast út í eitt­hvað meira og verra. Blettirnir voru teknir af og tók að­gerðin, sem var mjög ein­föld, að­eins um tíu mínútur.

Örn hvetur fólk til að vera vakandi fyrir ein­kennum og nota sólar­vörn þegar svo ber undir. Hann mætir svo aftur í tékk til húð­læknis eftir ár og ætlar að passa sig vel á því að mæta reglu­lega í eftir­lit.