67% stúdenta líður frekar illa eða mjög illa í þeim aðstæðum sem nú ríkja sökum COVID-19.

Þetta er meðal niðurstaðna könnunar sem framkvæmd var af Stúdentaráði Háskóla Íslands með það að markmiði að kanna áhrif COVID-19 á líðan og námsframvindu stúdenta.

Þá sögðust 73% svarenda upplifa frekar mikið eða mjög mikið álag sökum faraldursins sem þau telja hafa áhrif á námsframvindu sína. Sjá 56% fram á að klára misserið en ekki með jafn góðum árangri og þau ætluðu sér. 

Meirihluti hefur áhyggjur af því að smitast

64% svarenda sögðust hafa haft miklar eða frekar miklar áhyggjur af því að smitast af COVID-19 eftir að misserið hófst en aðeins 2% hafa sýkst. 28% höfðu þurft að fara í sóttkví.

19% stúdenta sögðust hafa haft frekar litlar eða mjög litlar áhyggjur af því að smitast.

63% svarenda sögðust umgangast mjög reglulega fólk í áhættuhóp og 78% hafa haft miklar eða frekar miklar áhyggjur af því að nákominn smitist. 32% eiga einhvern nákominn sem hefur veikst af COVID-19.

Nánar er greint frá niðurstöðunum á heimasíðu Stúdentaráðs en könnunin var gerð í kjölfar þess að hertar sóttvarnaraðgerðir voru boðaðar fyrir nokkrum vikum og ljóst að stúdentar hefðu áhyggjur af námi sínu.

Um er að ræða fimmtu könnunina sem Stúdentaráð hefur framkvæmt eða haft aðkomu að eftir að faraldurinn hófst.