Alls greindust 171 einstaklingur hér á landi með Covid-19 í síðustu viku, sem eru heldur færri en hafa verið að greinast undanfarnar vikur. Þetta kemur fram á heimasíðu Embættis landlæknis.
Þá kemur fram að hlutfall jákvæðra sýna er áfram hátt og var í síðastliðinni viku að meðaltali tuttugu og sex prósent, sem gefur til kynna mikla dreifingu í samfélaginu.
Þá reyndust tæplega átta af hverjum tíu raðgreindum sýnum vera ómikrón BA.5 afbrigðið og undirafbrigði þess en rúmlega tvö af hverjum tíu reyndust vera ómikron BA.2 afbrigðið og undirafbrigði þess.
Alls lögðust 27 einstaklingar inn á Landspítala í síðustu viku vegna Covid-19. Þrír eru inniliggjandi á sjúkrahúsinu á Akureyri, þar af einn á gjörgæslu. Þá er einn inniliggjandi á gjörgæslu á Landspítalanum.