Stjórnendur Dönsku krárinnar í Ingólfsstræti og The English Pub í Austurstræti neyddust til að loka þeim um helgina þegar einn starfsmaður á hvorum stað greindist Covid-smitaður og allt starfslið á sömu vakt var sent í sjö daga sóttkví.

Þetta staðfestir Logi Helgason, rekstrarstjóri staðanna, í samtali við Fréttablaðið en hann segir það hafa verið áfall að þurfa að bregðast svona hart við á sjálfri verslunarmannahelginni. Í tilviki Dönsku krárinnar var ekki unnt að kalla út annað starfsfólk fyrr en á sunnudag, en öllu erfiðara reyndist að opna The English Pub að nýju þar eð vöktum hafði verið blandað saman dagana á undan – og hefur staðurinn ekki enn verið opnaður fyrir vikið.

Logi segir allt starfsfólk hafa tekið uppákomunni af æðruleysi, en vitaskuld hafi það ekki verið undirbúið fyrir atvik af þessu tagi, því smitrakningarteymi sóttvarnalæknis hafi skipað starfsfólkinu að loka starfseminni á stundinni, koma gestum úr húsi, slökkva á kertum og skella í lás. Svoleiðis vaktalokum eigi enginn að venjast.