Landhelgisgæslunni barst í morgun neyðarkall frá strandveiðibáti á Breiðafirði, tveir menn voru um borð í bátnum og varð þeim ekki meint af.

Mikill leki var um borð í bátnum og höfðu dælur hans ekki undan, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Nærstaddir bátar voru kallaðir til og þyrla gæslunnar boðuð út á hæsta forgangi.

Sex mínútum eftir að neyðarkallið barst var búið að bjarga báðum mönnunum um borð í nærstaddan bát.

Báturinn mannanna var kominn á hliðina skömmu síðar þar sem hann marraði í hálfu kafi og var björgunarskipið Björg frá Rifi var sent á vettvang til að skoða möguleika á að draga bátinn í land.