Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk neyðarkall skömmu eftir miðnætti frá 12 metra handfærabát sem hafði strandað rétt utan við Skála á sunnanverður Langanesi, en tveir menn voru um borð í bátnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var umsvifalaust send á staðinn ásamt björgunarbátum frá Þórshöfn, Bakkafirði og nærstöddum skipum og um leið voru björgunarsveitir frá Raufarhöfn, Þórshöfn og Húsavík sendar af stað.

Fiskibátur kom á svæðið rúmum klukkutíma eftir neyðarkallið en hann gat ekki athafnað sig á svæðinu. Veðrið var ágætt og bjart en það var nokkur öldugangur.

Björgunarbátur frá Bakkafirði kom á staðinn um hálfþrjú en það var ekki talið skynsamlegt að reyna björgun frá sjó sökum sjólags. Aðstæður til björgunar frá landi voru ekki góðar heldur, því báturinn hafi strandað undir bjargi. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-EIR, kom á vettvang nokkrum mínútum síðar og rétt fyrir þrjú í nótt var búið að bjarga báðum mönnunum um borð í þyrluna.

Við birtingu verða aðstæður kannaðar betur og athugað hvort hægt sé að bjarga bátnum.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem var tekið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar þegar sigmaður fór um borð í bátinn í nótt.