Þar sem tölu­verður fjöldi smita af völdum kóróna­veirunnar CO­VID-19 hafa komið upp í Ítalíu á síðustu dögum hefur em­bætti land­læknis mælt með því að þeir sem hafa ferðast til á­kveðinna héraða Ítalíu við­hafi sótt­kví í fjór­tán daga við komuna til Ís­lands.

Alls hafa sjö manns látið lífið af völdum veirunnar í Ítalíu, þar af fjórir síðasta sólar­hring. Þau héruð sem um ræðir eru Pi­ed­mont, Lom­bar­dy, Veneto og Emilio-Romagna en þeir sem veikjast hér á landi eftir dvöl á svæðunum er ráð­lagt að hafa sam­band við lækna­vaktina eða heilsu­gæslu sím­leiðis.

„Sótt­varnar­læknir mælir gegn ó­nauð­syn­legum ferðum til ofan­nefndra fjögurra héraða á Norður-Ítalíu að svo stöddu, og hafa ber í huga þau á­hrif sem að­gerðir ítalskra stjórn­valda geta haft á ferða­á­ætlanir,“ segir í til­kynningu á vef land­læknis og er fólki bent á að fylgjast vel með fréttum.

Rúmlega þrjátíu sýni rannsökuð hér á landi

Rúm­lega tvö hundruð smit af völdum kóróna­veirunnar hafa nú verið stað­fest í landinu en Ítalía er fyrsta landið í Evrópu þar sem ekki er hægt að rekja dauðs­fall af völdum veirunnar til Kína. Líkt og áður hefur verið greint frá kom veiran fyrst upp í lok desember árið 2019 í kín­versku borginni Wu­han í Hubei-héraði.

Tæplega 80 þúsund smit af völdum kórónaveirunnar hafa verið staðfest og er tala látinna nú 2.628. Þá hafa rúmlega 25 þúsund manns náð sér eftir smit. Langflest smit hafa komið upp í Kína en staðfest er að veiran geti smitast milli manna og því ekki nauðsynlegt að fólk hafi nýlega verið í Kína.

Enn sem komið er hafa engin stað­fest smit komið upp hér á landi en 33 sýni hafa verið rann­sökuð. Sam­kvæmt á­hættu­mati Sótt­varnar­stofnunar Evrópu aukast líkur á að til­felli komi meðal annars til Ís­lands og er staðan stöðugt metin. Unnið er sam­kvæmt ó­vissu­stigi, Lands­á­ætlun- heims­far­aldur in­flúensu.

Á eftir Kína hafa flestir smitast í Suður Kóreu og á Ítalíu.
Mynd/Skjáskot