Að­gerðarinnar á vegum tveggja dýraverndunarsamtaka hafa komist að því að kálfar sem voru leið til slátrunar í Hollandi frá Ír­landi voru beittir al­var­legu of­beldi og mis­notkun á hvíldar­stöð sem stað­sett er í Frakk­landi. Í leyni­legri upp­töku sem sam­tökin Eyes on Animals birtu á Face­book-síðu sinni má sjá að kálfarnir voru barðir með kylfum, dregnir á eyrum sínum og stappað á þeim.

Að­gerðarinnar fylgdust með allt að fimm þúsund kálfum sem átti að flytja á 23 sendi­bílum frá Ír­landi til Holland. Mynd­skeiðin eru tekin í Tollevast í Frakk­landi þar sem sam­kvæmt lögum Evrópu­sam­bandsins dýrin eiga rétt á því að hvíla sig og nærast. Á upp­tökunum má sjá að dýrin eru dregin á eyrum sínum, stappað á þeim og þau í­trekað barin með kylfum. Sum dýranna eru svo illa farin eftir of­beldi starfs­manna að þau standa ekki lengur í fjórar lappir og draga aftur­lappirnar á eftir sér.

Leyni­leg upp­taka sem tekin var upp á slíkum hvíldar­stað í Qu­alivia í mars sýnir einnig starfs­mann henda einum kálfinum á gólfið og í­trekað hoppa á honum. Sú hvíldar­stöð hefur verið á­litin ein af þeim betri og hefur sam­kvæmt um­fjöllun Guar­dian hlotið styrk frá Evrópu­sam­bandinu.

„Það brýtur í manni hjartað a sjá hvernig þessi við­kvæmu dýr, sem geta varla enn staðið á löppum sínum og treysta á móður­mjólkina, ganga í gegnum hrylli­lega með­ferð á meðan þau eru flutt til Hollands þar sem á að slátra þeim,“ segir Nicola Glen, tals­kona sam­takanna Eyes on Animals sem sá um rann­sóknina á­samt frönsku sam­tökunum, L214.

Yfir­maður hvíldar­stöðvarinnar, Robert Drisqu­e, neitaði að svara fyrir­spurnum Guar­dian um málið og sagði að málið hafi haft al­var­leg sál­ræn á­hrif á starfs­fólk hans.

„Við­brögð yfir­valda voru hröð í þetta skiptið. Það er gott en við höfum ekki séð neina hreyfingu á út­flutnings­við­skiptum enn sem komið er,“ segir Isis La Bruyère sem starfar sem eftir­lits­maður fyrir L214 í Frakk­landi.

Hún segir að þeirra krafa sé sú að hætt sé að flytja dýr sem ekki er búið að venja svo langar leiðir til slátrunar. Þannig sé ekki hugað að vel­ferð dýranna.

Krefjast þess að tekin sé ábyrgð á velferð dýranna

Þess er krafist að bæði Ír­land, þar sem dýrin eru að mestu fram­leidd, og Holland, þar sem þeim er slátrað taki á­byrgð á vel­ferð dýranna. Of­beldi starfs­mannanna er nú rann­sakað af lög­reglunni í Frakk­landi sem hafa sam­kvæmt frétt Guar­dian hand­tekið manninn sem sést stappa á einum kálfinum í mynd­skeiðinu. Hann á yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsis­dóm.

Írar eru einn stærsti út­flutnings­aðili kálfa sem enn á eftir að venja í álfunni og hefur út­flutningur þeirra aukist um 30 prósent ár­lega. Karl­kyns kálfar eru auka­af­urð mjólkur­fram­leið­enda og voru á síðasta ári fluttir um 160 þúsund karl­kyns kálfar frá Ír­landi til megin­lands Evrópu til slátrunar. Dýrin eru flutt langa vega­lengdir í bílum í gegnum Holland, Spán, Ítalíu og eru oft í slæmu á­standi þegar þau koma á á­fanga­stað. Um borð í bílunum er tak­markað að­gengi að vatni og hreinu lofti.

Þegar kálfunum er hleypt úr bílunum á hvíldar­stöðvunum er yfir­leitt ekki svo langt frá því að þeir voru að­skildir frá mæðrum sínum og því leita þeir oft í mikilli ör­væntingu að brjósti þeirra til að sjúga. Þeir eru yfir­leitt enn í á­falli eftir að hafa varið meira en 48 klukku­stundum í senn á ferða­lagi í miklum þrengslum.

Hætta að neyta mjólkurvara eða breyta framleiðsluferlinu

Lissabon-sátt­máli Evrópu­sam­bandsins viður­kennir að dúyr séu skyni gæddar sem hafi til­finningar. Árið 2005 var í sam­bandinu sam­þykkt reglu­gerð sem á að varð­veita vel­ferð dýra á meðan slíkum flutningum stendur en reglu­gerðin er í­trekað hunsuð. Til að bregðast við því kölluðu nokkrir þing­menn Evrópu­þingsins eftir því í vetur að eftir­lit sem ekki er til­kynnt væru aukið og að settar væru á hærri sektir.

For­stjóri Eyes on Animals, Lesl­ey Moffat, segir að til að koma í veg fyrir slíkt of­beldi verði að endur­hugsa mjólkur­fram­leiðslu og þann iðnað sem henni fylgir.

„Annað hvort hættum við að neyta mjólkur­vara, eða að mjólkur­iðnaðurinn inn­leiðir fram­leiðslu kálfa­kjöts á sín býli og getur þannig að allir kálfarnir í hjörðinni geti verið með mæðrum sínum, og þeir allir aldnir upp saman,“ segir Moffat.

Um 1,5 milljarður dýra eru flutt í Evrópu­sam­bandinu á hverju ári. Einn kálfur gæti verið fæddur á Ír­landi, nærður og fitaður í Hollandi, slátrað á Spáni og seldur í Þýska­landi.

Hér að neðan má sjá mynd­skeiðið í heild. Við­kvæmir eru varaðir við inni­haldi þess.

Fjallað er um málið á Guardian og The Times.