Bandaríkin munu halda áfram að tala fyrir tveggja ríkja lausn á milli Ísrael og Palestínu. Fyrst þurfi hins vegar að koma á vopnahléi og mikil vinna á sér stað að tjaldabaki til að koma því á.
Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi með Anthony Blinken og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherrum Bandaríkjanna og Íslands, í Hörpu nú fyrir skömmu. Ráðherrarnir funduðu kl.10 og hófst blaðamannafundurinn kl. 11:35. Blinken mun í kjölfarið funda með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, kl. 13 og með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, kl. 14. Að þeim fundi loknum fara Blinken og Guðlaugur Þór í heimsókn í Hellisheiðarvirkjum þar sem kynning verður á Carbfix-verkefninu.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, kemur til landsins annað kvöld. Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins hefst svo á fimmtudag.
Guðlaugur Þór sagði að ráðherrarnir hefðu átt gott samtal um samband þjóðanna. Blinken tók undir það og sagði Ísland gegna mikilvægu hlutverki í að stuðla að jafnrétti og mannréttindum í heiminum.
Vill halda áfram viðræðum fremur en að nýta öryggisráðið
Blaðamaður frá Reuters spurði Blinken um ákvörðun Bandaríkjanna um að beita neitunarvaldi gegn sameiginlegri yfirlýsingu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um nauðsyn þess að stilla til friðar milli Hamas og Ísrael. Hann spurði enn fremur hvernig þetta kæmi saman við yfirlýsingar stjórnar Joe Biden Bandaríkjaforseta um mikilvægi þess að auka samstarf við aðrar þjóðir. Blinken sagði Bandaríkin vinna hart að því bak við tjöldin að stilla til friðar og ekki yrði staðið í vegi fyrir aðgerðum öryggisráðsins sem líklegar væru til að skila árangri. Það væri ekki raunin á þessari stundu, frekar ætti að ræða við þjóðir á svæðinu til að reyna að koma á vopnahléi.
Blinken sagði að vænlegasta lausnin til varanlegs friðar fyrir botni Miðjarðarhafs væri tveggja ríkja lausn, sem tryggði Ísrael tilverurétt sem lýðræðislegt ríki og að Palestínumenn fengu sitt ríki sem þeir ættu sannarlega rétt á. Hann sagði Bandaríkin andsnúin öllum aðgerðum sem komið gætu í veg fyrir þá lausn. Guðlaugur Þór ítrekaði að gríðarlega mikilvægt væri að koma á friði milli stríðandi fylkinga.
Vonast eftir áframhaldandi samstarfi við Rússa
Blinken var spurður út í orð Lavrov um að norðurskautssvæðið væri yfirráðasvæði Rússa sem önnur ríki ættu ekki tilkall til. Hann sagði að ef Rússar myndu sýna af sér gáleysislega hegðun hvað þetta varðar þá muni Bandaríkin svara með viðeigandi hætti. Blinken sagðist vonast til að áframhald yrði á góðu samstarfi milli ríkja Norðurskautsráðsins um málefni svæðisins. Rússar héldu engu að síður á lofti ólöglegum kröfum hvað hafrétt á svæðinu varðar og. Bandaríkin hefðu komið því áleiðis við Rússa að farsælla væri að leysa þau mál á vettvangi alþjóðlegrar samvinnu um hafréttarmál. Bandaríski utanríkisráðherrann lýsti einnig yfir áhyggjum sínum að hernaðaruppbygginu Rússa á norðurskautasvæðinu.
Guðlaugur Þór sagði að norðurskautssvæðið væri ekki einskis manns land og þar giltu alþjóðalög í samræmi við samninga um svæðið. Hann sagði mikilvægt að tryggja að svæðið væri laust við átök.
Til stendur að Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, fundi. Mun slíkur fundur liggja fyrir á næstu vikum. Blinken sagði ekki hvort Ísland kæmi til greina.
Mótmælt fyrir utan Hörpu
Nokkur fjöldi aðgerðarsinna safnaðist saman í morgun fyrir utan Hörpu til að minna á málstað Palestínumanna í ljósi ástandsins á Gaza. Blinken gerði átökin á milli Ísraela og Palestínumanna að sínu fyrsta umræðuefni, sagði hann að það væri ósk Bandaríkjanna að vopnahlé yrði komið á sem fyrst en að Ísrael hefði allan rétt á því að verja sig fyrir eldflaugaárásum af hálfu Hamas-samtakanna.
