Lands­réttur stað­festi í dag tveggja og hálfs árs fangelsis­dóm yfir karl­manni sem var dæmdur fyrir að hafa haft sam­ræði við konu án hennar sam­þykkis og not­fært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefn­drunga.

Á­kæru­valdið krafðist þess að refsing hans yrði þyngd en Landsréttur staðfesti hins vegar dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.

Í við­bótar­skýrslu á­kærða fyrir Lands­rétti sagði hann að þau brota­þoli hefðu spjallað saman í stofunni eftir að vitnið B sofnaði í sófanum en sagðist ekki muna hvað þeim hefði farið á milli. Ekkert kyn­ferðis­legt hefði þó átt sér stað. Þá kvaðst hann að­spurður hafa vaknað á miklum „niður­túr“ um há­degis­bil á sunnu­deginum og með minningu um að hafa gyrt niður um brota­þola.

Hann sagðist ekki geta lýst þeim rang­hug­myndum sem hann hefði borið um í héraði að hefðu kviknað með honum á þeirri stundu en kvaðst að­spurður ekki minnast þess að þær hefðu snúist um að hafa sam­farir við brota­þola.

Fyrir utan sam­eigin­lega minningu um að hafa gyrt niður um hana sokka­buxurnar kvaðst á­kærði telja að fram­burður brota­þola um það sem síðar eigi að hafa átt sér stað var til­búningur. Hann sagðist ekki hafa skýringar á því hvers vegna brota­þoli yfir­gaf í­búðina í upp­námi og grátandi um morguninn.

Lýsti atvikum með nákvæmum hætti

Brota­þoli lysti líðan sinni eftir at­vikið. Að mati Lands­réttar lýsti hún at­vikum með ná­kvæmum hætti þegar hún ræddi við réttar­gæslu­mann sinn, gaf skýrslu hjá lög­reglu og fyrir dómi. Hún sagðist bæði hafa verið drukkin og í miklu á­falli þegar vitni í málinu ók henni á neyðar­mót­tökuna.

„Hvorki verður af fram­burði brota­þola né öðrum gögnum málsins ráðið að hún hafi gefið sér að á­kærði hefði haft við hana sam­farir né að ætla megi að hún hafi verið haldin rang­hug­myndum at­vik. Þá hefur brota­þoli gefið trú­verðugar skýringar á því að nokkur tími leið frá at­vikum þar til hún lagði fram kæru,“ segir í dómi Lands­réttar.

Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi og þá er honum gert að greiða allan á­frýjunar­kostnað málsins 1.192.408 krónur á­samt því að greiða brota­þola 1.800.000 krónur í miska­bætur.

Hægt er að lesa dóminn hér.