Tveggja metra reglan verður innleidd á öllu landinu á þriðjudag þegar ný reglugerð heilbrigðisráðherra tekur gildi.

Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi heilbrigðisráðherra, í samtali við Vísi að loknum ríkisstjórnarfundi. Reglugerðin á að gilda í tvær til þrjár vikur.

Að svo stöddu gilda bara tveggja metra fjarlægðarmörk á höfuðborgarsvæðinu eftir að sóttvarnaraðgerðir voru hertar staðbundið í síðustu viku. Á sama tíma hafa fjarlægðarmörk í öðrum landshlutum miðast við einn metra en langstærstur fjöldi virkra kórónaveirusmita eru á suðvesturhorni landsins.

Enn fremur greinir Vísir frá því að þau tilmæli sem hafi gilt um íþróttaiðkun verði gerð að reglum. Þá muni sömu reglur gilda um íþróttastarf innan- og utandyra.

Verða reglur um skólahald og opnunartíma veitingastaða óbreyttar.

Guðmundur er staðgengill Svandísar Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á meðan hún er í tímabundnu leyfi.

Fréttin hefur verið uppfærð.