Lög­reglu­yfir­völd í Kanada leita nú tveggja manna, Damien Sander­son og My­les Sander­son, sem grunaðir eru um að hafa stungið tíu manns til bana og sært fimm­tán til við­bótar.

Fórnar­lömbin fundust á alls þrettán stöðum í sam­fé­lagi frum­byggja í suður­hluta landsins í gær. Um er að ræða eitt versta fjölda­morð í sögu landsins og sagðist Justin Tru­deau, for­sætis­ráð­herra landsins, vera harmi sleginn vegna á­rásanna.

Lög­reglu­yfir­völd í Saskatchewan hafa hvatt fólk til að vera á varð­bergi vegna mannanna sem eru taldir vopnaður og mjög hættu­legir eins og gefur að skilja. Sagði Tru­deau að lög­regla myndi gera allt sem hún gæti til að finna mennina og draga þá til á­byrgðar.

Í frétt BBC kemur fram að þegar fregnir af á­rásunum spurðust út hafi í­búar í Saskatchewan, Manitoba og Alberta fengið skila­boð í síma sína um að vera á varð­bergi. Neyðar­á­standi var í kjöl­farið lýst yfir í James Smith Cree Nation, sam­fé­lagi sem telur tvö þúsund íbúa, og í þorpinu Weldon sem telur 200 íbúa.

Lög­regla rann­sakar nú til­drög á­rásanna og úti­lokar ekki að mennirnir hafi skipu­lagt á­rásir á á­kveðna ein­stak­linga. Lög­regla telur þó að sum fórnar­lömbin hafi verið valin af handa­hófi.

Lög­regla hefur ekki gefið neitt upp um tengsl Damien og My­les, en báðir eru þeir um þrí­tugt.

Mennirnir sem lögregla leitar að, Damien Sander­son og My­les Sander­son.