Lögregluyfirvöld í Kanada leita nú tveggja manna, Damien Sanderson og Myles Sanderson, sem grunaðir eru um að hafa stungið tíu manns til bana og sært fimmtán til viðbótar.
Fórnarlömbin fundust á alls þrettán stöðum í samfélagi frumbyggja í suðurhluta landsins í gær. Um er að ræða eitt versta fjöldamorð í sögu landsins og sagðist Justin Trudeau, forsætisráðherra landsins, vera harmi sleginn vegna árásanna.
Lögregluyfirvöld í Saskatchewan hafa hvatt fólk til að vera á varðbergi vegna mannanna sem eru taldir vopnaður og mjög hættulegir eins og gefur að skilja. Sagði Trudeau að lögregla myndi gera allt sem hún gæti til að finna mennina og draga þá til ábyrgðar.
Í frétt BBC kemur fram að þegar fregnir af árásunum spurðust út hafi íbúar í Saskatchewan, Manitoba og Alberta fengið skilaboð í síma sína um að vera á varðbergi. Neyðarástandi var í kjölfarið lýst yfir í James Smith Cree Nation, samfélagi sem telur tvö þúsund íbúa, og í þorpinu Weldon sem telur 200 íbúa.
Lögregla rannsakar nú tildrög árásanna og útilokar ekki að mennirnir hafi skipulagt árásir á ákveðna einstaklinga. Lögregla telur þó að sum fórnarlömbin hafi verið valin af handahófi.
Lögregla hefur ekki gefið neitt upp um tengsl Damien og Myles, en báðir eru þeir um þrítugt.
