Dumitru- Aurel Ivan var í dag dæmdur í tveggja mánaða fangelsi að hafa árið 2019 hafa kyn­ferðis­leg á­reitt konu sem var í kyrr­stæðri bif­reið fyri utan tón­listar­skóla í Reykja­vík. Héraðsdómur ákvað hins vegar að fresta skal fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá deginum í dag, haldi Ivan skil­orði. Þá er honum einnig gert að greiða konunni 400.000 kr. í miska­bætur.

Ivan er dæmdur fyrir að hafa teygt sig inn um glugga bif­reiðarinnar og strjúka utan­klæða upp­hand­legg hennar, öxl og læri. Hann hafi svo farið inn í bílinn og strokið utan­klæða hendur hennar, bak, læri og mjaðmir, tekið utan um hana og kysst háls hennar og hendur.

Sam­kvæmt frum­skýrslu lög­reglu kvaðst brota­þoli, þegar klukkan var rúm­lega þrjú fyrr um daginn, hafa verið að koma úr tíma í tón­listar­skóla við Rauða­gerði 27 í Reykja­vík og hún verið sest inn í bif­reið sína sem lagt var á bif­reiða­stæði fyrir utan. Nokkru síðar, á meðan hún hefði setið í bif­reiðinni, hefði ó­kunnugur maður komið að bif­reiðinni, fyrst að dyrum öku­manns, en svo farið ó­boðinn inn í bif­reiðina og sest í far­þega­sætið.

Maðurinn hefði á­reitt hana kyn­ferðis­lega með því að strjúka henni utan­klæða á nánar til­greindum stöðum á líkamanum. Um leið hefði hann talað við hana á kyn­ferðis­legan hátt, auk þess sem hann hefði hindrað hana í því að komast út úr bif­reiðinni með því að halda í hana.

Leitaði skjóls hjá starfsfólki meðan maðurinn elti hana

Konan mót­mælti því sem fram fór en var mjög hrædd og komst ekki frá manninum. Þau hefðu verið í bif­reiðinni í um það bil klukku­stund og maður greindi meðal annars frá aldri sínum og hvað hann væri búinn að vera lengi hér á landi.

Þegar konan komst út úr bílnum leitaði hún inn í skóla­hús­næðið en maðurinn elti hana. Henni tókst á endanum að leita skjóls hjá starfs­fólki í af­greiðslu skólans.

Meðal gagna málsins er upp­taka úr eftir­lits­mynda­véla­kerfi um­rædds tón­listar­skóla klukkan 15:34 og á­fram sem sýnir sam­skipti á­kærða og brota­þola fyrir utan húsið. Þar má sjá þau ræða saman í nokkrar mínútur og svo faðmast.

Á hluta upp­tökunnar má meðal annars sjá hvernig á­kærði snertir brota­þola á nánar til­greindan hátt á aftan­verðan líkama hennar og hvernig hún virðist kippast við og vera því mót­fallin og ýta eða bægja á­kærða frá sér. Þá sést á upp­tökunni þar sem þau ræða saman í nokkrar mínútur til við­bótar en fara svo bæði inn í skólann.

Í niður­stöðu Héraðs­dóms Reykja­víkur segir Ivan hafi sýnt af sér mikið skeytingar­leysi gagn­vart vilja­af­stöðu brota­þola og hún kunni í raun að hafa verið lán­söm að ekki fór verr. Á­kærði hafi í raun haldið á­fram að á­reita brota­þola þegar hún var komin út úr bif­reiðinni eða viljað ná henni þar inni aftur. Bendir því allt til þess að á­setnings­stig hans hafi veri hátt. Brot af þessum toga er til þess fallið að valda and­legu tjóni.

Dómurinn á­kvað því að refsing hans yrði tvö ár en vegna ó­veru­legs saka­ferils á­kærða þótti rétt að fresta fullnustu refsingarinnar.