Alþingi lauk nú sinni fyrstu umræðu um breytingar á skipun ráðuneyta en umræðan stóð yfir í tvo daga.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat fyrir svörum þingmanna um tilfærslurnar og mun tillagan næst ganga til annarrar umræðu og til stjórnskipunar - og eftirlitsnefndar.

„Það er mjög mikilvægt að allir flokkar eigi þátt í því samtali um það hvernig við teljum að lagarammanum eigi að vera háttað,“ sagði Katrín þegar hún kynnti þingsályktun sína um skipan ráðuneytanna á þingfundi í gærkvöldi.

Ráðuneytum fjölgar og verkefni færast til

Líkt og ríkisstjórn tilkynnti í lok nóvember fjölgar ráðuneytum úr tíu í tólf og færast verkefni á milli ráðuneyti.

Ráðuneyti sem hætta: atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti

Ný ráðuneyti: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, innviðaráðuneyti, matvælaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðneyti.

Nýjar áskoranir krefjast skapandi lausna

Katrín segir Ísland standa frammi fyrir áskorunum sem krefjast nýrrar hugsjónar og skapandi lausna. Hún nefndir loftslagsbreytingar, orkuskipti, réttlát umskipti, sjálfbæra þróun, breytta samsetningu samfélagsins og tæknibreytingar.

„Það má segja að hugsunin á bak við allar þessar breytingar snýst um að efla samstarf ráðuneyta,“ sagði forsætisráðherra sem vill að hugsað sé um Stjórnarráðið í auknum mæli sem hreyfanlegan vinnustað. Mikilvægt væri að flytja málaflokka milli ráðuneyta án þess að glata þekkingu og stofnanaminni.

Katrín ver breytingarnar

  • Þá hefur vakið athygli að menning, viðskipti og ferðaþjónusta koma saman í nýju ráðuneyti Lilju Alfreðsdóttur. „Það hefur verið krafa undanfarinna ára að menningin fái aukið rými í stjórnsýslunni,“ sagði Katrín sem vill með þessari sameiningu skapa aukin tækifæri en skapandi greinar og ferðaþjónusta hafa tekið á sig verulegt högg í heimsfaraldrinum.
  • Nýtt mennta- og barna­mála­ráðu­neyti mun fara með mál­efni skóla og fræðslu, æsku­lýðs- og íþrótta­mál auk málefna barna og barna­verndar. Katrín sagði mikilvægt að innleiðing laga um farsæld barna væri í sama ráðuneyti og leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar „til að tryggja að þau geti notið bestu mögulegu velferðarþjónustu.“
  • Það að setja saman orku, umhverfi, loftslag og náttúruvernd snýst um tryggja að orkuskipti og nýting orku sé í samræmi við sjónarmið um umhverfis- og náttúruvernd og loftslagsmarkmið að sögn forsætisráðherra.
  • Sömuleiðis bendir Katrín á að hugverkageirinn sé nú orðin ein lykil útflutningsstoð fyrir Ísland. Háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti á að brúa bilið milli háskóla, vísinda og grunnrannsókna annars vegar og tækniþróunar og nýsköpunar hins vegar.
  • Vinnumarkaðsmálin munu fá aukið vægi í félagsmálaráðuneytinu að sögn Katrínar. Með þessari sameiningu vonast forsætisráðherra til að tryggja heilbrigðari vinnumarkað. „Við viljum tryggja að vinnumarkaðurinn einmitt geti tekist á við þessar breytingar sem ég verið að nefna; tæknibreytingar og loftslagsbreytingar.“
Þórunn Sveinbjarnardóttir spurði um kostnaðinn.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði forsætisráðherra út í kostnaðinn.

„Áætlaður kostnaður við það að setja á laggirnar tvö ný ráðuneyti nemur um það bil 450 milljónum króna. Það er að segja 190 milljónir í stofnkostnað á hvort ráðuneyti og síðan 50 rúmar milljónir sem er kostnaður við einn viðbótar ráðherra og tvo aðstoðarmenn,“ svaraði Katrín.

Eyjólfur Ármansson er hræddur um að ráðuneytin tapi þekkingu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, velti upp spurningum um samtöl við starfsmenn ráðuneyta vegna breytinganna og hvort verklag væri komið.

„Við höfum verið að eiga samtöl við starfsmenn ráðuneytanna og það liggur alveg fyrir aðþað er misauðvelt að flytja verkefni.“

Eyjólfur lýsti yfir áhyggjum með flutning starfsmanna og sagðist óttast þess að þekking glatist við tilflutninginn.

„Þegar er verið að flytja málefni milli ráðuneyta þá felur það líka í sér að flytja þekkingu á málefnum. Þá felur það í sér flutning starfsmanna sem slíka og það getur haft gríðarlega mikil áhrif á starfsmenn. Hann getur verið ósáttur, hann getur ákveðið að hætta störfum og þekking getur horfið,“ sagði Eyjólfur.

Mynd/Heiða Helgadóttir

Ellefu blaðsíðna brandari

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, gaf lítið fyrir rökstuðning ríkisstjórnarinnar með breytingarnar.

„Ég segi það með öll ráðuneytin og alla skipanina, að ég hefði viljað sjá aðeins meiri vinnu lagða í að rökstyðja þetta og útskýra þetta fyrir okkur þannig að sómi hefði verið að,“ sagði Sigmar.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, fór í hláturskast þegar hann ræddi tillöguna.

„Þetta er 11 blaðsíðna brandari,“ sagði Björn Leví. „Ég legg til að við tökum bara fram endurvinnslutunnuna og bara látum þetta detta þangað.“