Banda­ríska streymis­veitan HBO Max er ekki væntan­leg til Ís­lands síðar á árinu líkt og banda­ríska stór­fyrir­tækið Warner­Media hafði áður fyrir­hugað. Þess í stað er upp­færð streymis­veita væntan­leg seint á árinu 2024. Þetta kemur fram í svari frá fyrir­tækinu við fyrir­spurn blaðsins.

Í svarinu kemur fram að koma streymis­veitunnar til landsins muni tefjast vegna kaupa Discov­ery á Warner­Media. Þau kaup feli í sér breyttar á­herslur hjá fyrir­tækinu og þá sér­stak­lega með til­liti til streymis­veitu fyrir­tækisins.

Hið nýja fyrir­tæki undir nafninu Warner Bros. Discovery hafi gefið það út fyrr á árinu að það hafi hætt við öll plön um að fjölga löndum þar sem HBO Max streymis­veitan er í boði. Þess í stað hyggst fyrir­tækið ein­beita sér að út­gáfu nýrrar og öflugri streymis­veitu sem sam­eini HBO Max og Discovery+ streymis­veituna, að því er segir í svörum fyrir­tækisins.

Stefnt er að því að ný streymis­veita verði sett í loftið í Evrópu árið 2024 í stað HBO Max. Ekki er stefnt að bjóða upp á nýju streymis­veituna í öðrum löndum í Evrópu þar sem HBO Max hafði ekki þegar verið í boði, fyrr en seinna á árinu 2024.

Áður hafði Warner­Media til­kynnt að streymis­veitan HBO Max yrði í boði á Ís­landi síðar á þessu ári, án þess þó að hafa gefið út ná­kvæma dag­setningu. Streymis­veitan er ein fárra banda­rískra streymis­veitna sem ekki eru í boði á Ís­landi.