Héraðs­dómur Reykja­ness dæmdi mann með væga þroska­hömlum og ýmis and­leg vanda­mál í skil­orðs­bundið fangelsi fyrir nauðgun. Brota­þoli er fyrr­verandi kærasta mannsins og en brotið átti sér stað í nóvember 2019.

Mála­vöxtum er þannig lýst í dóminum að brota­þoli kom á lög­reglu­stöð á sunnu­dags­morgni og til­kynnti að henni hafi verið nauðgað nóttina áður af fyrr­verandi kærasta sínum. Lýsti hún at­burðum þannig að þau hafi verið heima hjá vini hans þegar hún hafi fundið fyrir miklum kvíða. Hennar fyrr­verandi hafi þá boðið henni Sobril og hún hafi tekið þrjár töflur af því en hún hafði aldrei tekið lyfið áður. Eftir það hafi hún reykt kanna­bis. Hún hafi svo farið með sínum fyrr­verandi heim til hans til að sofa.

Þar hafi hann lýst á­huga á kyn­lífi með henni en hún í­trekað neitað og beðið hann að sofa á sófa í stofunni. Svo hafi hún stein­sofnað full­klædd í galla­buxur, nær­buxur, hettu­peysu og topp.

Hún hafi vaknað um níu­leytið morgunin eftir og tók þá eftir því að hún hafi verið tekin úr buxum og klædd í þær aftur. Tölur hafi ekki verið hnepptar. Henni hafi fundist að brotið hafi verið á sér kyn­ferðis­lega. Hún hafi verið blaut á kyn­færum eins og eftir sæði.

Að­spurður hafi hennar fyrr­verandi sagt að þau hafi haft sam­farir um nóttina. Hún hafi tekið við­brögð hans upp á far­síma sinn og hann hafi viður­kennt að hafa klætt hana úr buxunum og haft við hana kyn­mök án hennar vilja.

Bað í­trekað um kyn­líf

Í skýrslu lög­reglu um upp­tökuna heyrist brota­þoli gráta. Á­kærði heyrist segja að þau hafi riðið en brota­þoli heyrist segja: ,,Nei við riðum ekki, ekki með mínum vilja, ég veit ekki hversu oft ég sagði nei.“ Hún hafi svo beðið á­kærða að segja sér hvað hann hafi gert og hann hafi svarað:,,Ég tók niður buxurnar þínar og reið þér án þeirra.“ Brota­þoli hafi þá spurt hvað það kallist og hann svarað: „nauðgun."

Í yfir­heyrslu hjá lög­reglu sagðist á­kærði hafa beðið brota­þola í­trekað um kyn­líf en hún neitað því. Hann hafi þrátt fyrir það haft sam­farir við hana því meðan þau hafi verið kærustu­par hafi þau oft stundað kyn­líf meðan annað þeirra svæfi og hann talið að það gilti enn um þau um­rædda nótt.

Hann hafi haft sam­farir við hana tví­vegis um nóttina. Í fyrra skiptið hafi hann verið mjög ýtinn en hún hafi verið hálf­sofandi. Hún hafi legið á bakinu og hann tekið hana úr buxunum og haft við hana sam­farir. Hann sagði hana hafa vaknað við þetta og fengið á­fall en hann hafi knúsað hana því honum hafi líka liðið illa. Eftir um 20 mínútur hafi þau sofnað aftur.

Seinni sam­farirnar hafi, að hans sögn, átt sér stað þegar þau voru bæði vakandi. Hann hafi þá farið að þrýsta á hana um kyn­líf en hún sagst vera of þreytt. Hann hafi þrátt fyrir það byrjað að hafa sam­farir við hana aftur í leg­göng. Þau hafi síðan sofnað aftur og sofið þar til um morguninn.

Hann sagði að þá hafi brota­þola liðið illa og farið að gráta vegna þess að hann hafi mis­notað hana. Hann hafi sagt henni að hann væri með sektar­kennd. Í sms skila­boðum hafi hann viðrað þá hug­mynd að kæra sjálfan sig.

Héraðs­dómur sak­felldi manninn með vísan til fram­burðar þeirra beggja og annarra vitna og sönnunar­gagna. Sam­kvæmt dóminum er á­kærði sak­felldur fyrir al­var­legt kyn­ferðis­brot sem hafði mikil á­hrif á and­lega heilsu brota­þola. Hann hafi brotið al­var­lega gegn kyn­frelsi og sjálfs­á­kvörðunar­rétti brota­þola og er sam­kvæmt dóminum gert að sæta fangelsi í tvö ár.

Þá er vísað til þess að lög­reglan á suður­nesjum hafi látið fram­kvæma geð­rann­sókn á á­kærða með það fyrir augum að leiða í ljós hvort hann geti talist sak­hæfur. Það mat geð­læknis að hann teldist sak­hæfur. Hann glími hins vegar við marg­vís­leg vanda­mál. „Hann er greindur með ADHD, þroska­hamlaður, með væg merki um heila­skaða., með per­sónu­leika­röskun og vissa sið­blindu.“

Maðurinn hafi fyrst og fremst gagn af stuðningi

Í dóminum segir að hins vegar virðist maðurinn skilja lög og reglur sam­fé­lagsins og vita muninn á réttu og röngu. Hann hafi hins­vegar sjálfur ýtt undir sín eigin nei­kvæðu and­legu ein­kenni, aðal­lega með neyslu vímu­efna.

Segir enn­fremur að erfitt sé að sjá að refsing beri árangur en þrátt fyrir það eigi maðurinn að geta hegðað sér betur. Segir í dóminum að maðurinn hafi fyrst og fremst gagn af stuðningi, kennslu og hand­leiðslu fag­manna vegna þroska­hömlunarinnar og geð­ræns vanda.

Ákveðið var að skilorðsbinda refsinguna. Nauð­syn­legt þyki jafn­framt að maðurinn sæti sér­stöku eftir­liti á skil­orðs­tímanum og að hann hagi lífi sínu í sam­ræmi við þau vanda­mál sem hann glímir við. Þá er manninum gert að greiða konunni 1,5 milljón krónur í miska­bætur vegna brotsins.