„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma þessu barni öruggu heim,“ segir Terry Sult, yfirmaður lögreglunnar í borginni Hampton í Virginíuríki Bandaríkjanna.

Umfangsmikil leit fer nú fram að hinum tveggja ára Noah Tomlin sem var á mánudagskvöld komið fyrir í rúmi sínu til svefns. Þegar móðir hans vaknaði hafi hann hvergi verið sjáanlegur.

„Áhyggjurnar um öryggi barnsins aukast eftir því sem lengri tími líður,“ segir Sult í samtali við CNN. Hann kveðst þó enn vera vongóður um að Noah litli finnist heill á húfi.

Leitin er sem fyrr segir umfangsmikil en leitaraðilar hafa leitað á landi, í sjó og með þyrlum á svæðinu í kringum Hampton. Lögreglan í Hampton, ríkislögreglan í Virginíu og alríkislögreglan, FBI, taka öll þátt í leitinni að Noah litla.

Fulltrúar lögregluyfirvalda hyggjast engar ályktanir draga um hvarf drengsins. Ekkert sé útilokað að sögn Sult, ekki einu sinni möguleikinn að hann hafi látið sig hverfa, þrátt fyrir ungan aldur. Hvorki móðir né faðir Tomlin hafa stöðu grunaðs í málinu en þau hafa unnið náið með lögreglunni síðan í gær.