Sjötítu og átta konur eru á biðlista eftir gjafaeggi hjá LIVIO Reykjavík, sem áður hét IVF-klíníkin. Sá sem skráir sig á listann í dag, að undangengnu viðtali hjá félagsráðgjafa, getur vænst þess að þurfa að bíða í eitt og hálft til tvö ár eftir eggi.

Snorri Einarsson, kvensjúkdóma- og fæðingalæknir er yfirlæknir hjá LIVIO. Hann segir að biðin eftir gjafaeggi stjórnist af fjölda þeirra kvenna sem gefa egg. Í fyrra voru 39 gjafameðferðir framvæmdar. „Ef við fengjum fimmtán í viðbót á ári þá væri þetta kannski eins árs bið. Ef fjöldi þeirra sem gefa myndi tvöfaldast þá færi þetta niður í nokkurra mánaða bið,“ útskýrir hann. Fjöldinn þeirra kvenna sem gefa kynfrumur helst nokkuð stöðugur á milli ára.

Minna mál en konur halda

Hann segir að biðin eftir gjafaeggi, hjá þeim sem þurfi á slíku að halda, geti reynt mjög á pör sem kannski hafi reynt að eignast barn árum saman. „Mín skoðun er sú að það séu miklu fleiri konur sem geta hugsað sér að gefa egg. Það þarf að gera konum grein fyrir því að þetta er minna mál en konur halda.“

Konur sem vilja gefa egg þurfa að taka hormónalyf í tíu til fjórtán daga, en þessi tími hefur styst verulega frá því sem áður var. Konur á aldrinum 20-35 ára koma til greina sem gjafar.

Snorri segir algengt að konur haldi að hormónalyfjagjöfin sé mjög íþyngjandi fyrir tilfinningalífið og líkamann. En áhættan og óþægindin séu núna minni en áður. „Þetta er orðið þægilegra og einfaldara,“ segir hann. Þess má geta að LIVIO greiðir um 150 þúsund krónur í svokallað óþægindagjald, fyrir þann tíma og þau óþægindi sem ferlið getur haft í för með sér fyrir egggjafa.

Aðspurður segir Snorri að tæknin sem notuð sé hér sé sambærileg við þá tækni sem notuð sé í Skandinavíu, enda sé fyrirtækið LIVIO norrænt. Eitthvað er um að fólk leiti út fyrir landsteinana vegna glasameðferða en Snorri segir að það sé ekkert óeðlilegt. „Við skiljum vel að fólk vilji fá annað álit.“

Aldrei fleiri meðferðir

Alls voru 530 glasafrjóvgunarmeðferðir framkvæmdar á Íslandi í fyrra. Snorri segir að eftirspurn eftir þjónustu LIVIO sé að aukast og sé með mesta móti. Aldrei hafi verið gerðir fleiri glasafrjóvgunarmeðferðir. Hann segir að fyrsta skrefið sé að panta tíma hjá LIVIO og fá mat á frjósemi einstaklings eða pars. Hann segir að markmiðið sé að biðin eftir fyrsta viðtali sé fjórar til sex vikur en að hún hafi verið lengri að undanförnu, vegna mikillar eftirspurnar. Hann bendir þó á að oft dugi ráðgjöf eða einföld meðferð til. „Því minna sem við þurfum að gera því betra. Ef til meðferðar kemur, sem getur verið tæknifrjóvgun eða glasafrjóvgun, þá er biðin eftir því einn til þrír mánuðir.“

LIVIO tók á dögunum upp tækni sem gerir þeim kleift að frysta ófrjóvguð egg. Hann segir að slíkur kostur geti til dæmis verið fýsilegur fyrir konur sem greinast með illvíga sjúkdóma sem geti valdið ófrjósemi. Þetta geti líka hentað konum sem vilja eiga yngri egg þó þær hyggi sjálfar ekki á barneignir fyrr en síðar á lífsleiðinni.