Tvær fyrstu tilkynningarnar um alvarlega aukaverkun í kjölfar bólusetningar með bóluefni Astra-Zeneca bárust Lyfjastofnun í gær. Um var að ræða unga einstkalinga í báðum tilfellum.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að í öðru tilfelli hafi einstaklingur verið með þyngsli fyrir brjósti en í hinu tilfellinu var um að ræða bráðaof­næmis­ein­kenni. Í báðum tilfellum þurfti inngrip þar sem þeir leituðu hjálpar á heilbrigðisstofnun. Báðum ein­stak­ling­um er nú batnað.

Bóluefni Astra-Zeneca er ekki gefið einstaklingum eldri en 65 ára, og sá hópur sem hefur verið bólusettur með efninu hérlendis síðustu daga hefur að mestu leiti verið yngra fólk. 35 prósent þeirra sem hafa verið bólusett með Astra-Zeneca er á aldrinum 16-29 ára.

„Yngra fólk fær sterkari viðbrögð við bóluefnum vegna þess að það er með virkara ónæmiskerfi. Það er því eðlilegt að það verði veikara en þeir sem eldri eru," segir Rúna.

Hún segir að þetta sé í takt við það sem hefur sést í öðrum löndum. „Í Bretlandi hafa þeir bólusett flesta með bóluefni Astra-Zeneca og það hafa komið upp svipaðar aukaverkanir, eins og t.d. andþyngsli, versnun á astma og eitthvað slík," bætir Rúna við.

10 andlát af 21 tilkynningu

Alls hafa Lyfjastofnun borist 377 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19, þar af eru 21 taldar alvarlegar. Af þeim 21 al­var­legu til­kynn­ing­um sem borist hafa Lyfja­stofn­un varða 10 þeirra and­lát.

Flestar alvarlegar tilkynningar hafa borist vegna bóluefni Pfizer, eða 16, enda hafa flestir verið bólusettir með því efni og langflestir 80 ára eða eldri.

12.564 einstaklingar hafa nú verið fullbólusettir gegn COVID-19 hérlendis en 7.029 hafa fengið fyrri sprautuna. Alls voru rúmlega fjögur þúsund einstaklingar bólusettir í vikunni með bóluefni Pfizer og Astra-Zeneca.