Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að sýnataka tvö væri nauðsynleg til að lágmarka frekari smit hér á landi.

„Við höfum lært að einstaklingar geta verið með neikvætt próf í fyrstu skimun en síðan þróað með sér smit sem finnst í sýnatöku tvö. Það má því að segja að hún sé nauðsynleg. Útbreiðsla Covid-19 í nálægum löndum hefur farið vaxandi undanfarið og það eykur líkurnar á því að smit berist inn í landið nema að allir verði skimaðir."

Þá segir hann að dæmi hafi komið upp þar sem einstaklingar frá áhættusvæðum komi hingað til lands með millilendingu í öruggu landi hafi verið að gefa upp þessi öruggu lönd sem sinn dvalarstað undanfarinna 14 daga. Þannig hafi einstaklingar smyglað sér fram hjá skimun á landamærum rétt eins og var tilvikið hjá sjömenningunum sem smituðust á föstudag.

„Þetta hefur valdið ákveðnum vandamálum fyrir okkur hér innanlands þannig að fyrri flokkun landa í örugg og áhættu lönd með tilliti til Covid- 19 á varla lengur rétt á sér. Sérstaklega í ljósi vaxandi útbreiðslu í þeim löndum sem við höfum talið vera örugg. Ég tel því að sú leið sem stjórnvöld hafa farið að flokka öll lönd sem áhættusvæði frá og með 19. ágúst og fá sýnatöku hjá þeim öllum, sóttkví í fimm til sex daga og svo sýnatöku tvö sé raunverulega árangursríkasta aðgerðin til að koma í veg fyrir að veiran komist hingað inn til landsins."

Þórólfur segir að þessi aðferð verði endurskoðuð eftir að reynsla verði komin á hana.

Skimunin er áhrifarík

Þórólfur segir það ánægjulegt að einungis í þremur tilfellum hefur einstaklingur sem greindist í fyrstu skimun á landamærum náð að smita annan einstakling.

„Það sýnir hversu áhrifarík skimunin er. Að greina smitin strax á landamærum og geta einangrað þá einstaklinga af forðar okkur frá miklu samfélagslegu smiti."

Frá því að landamæraskimun hófst þann 15. júní síðastliðinn hafa sex einstaklingar sem reyndust neikvæðir við skimun á landamærum reynst jákvæðir í sýnatöku tvö. Þetta eru sex einstaklingar af rúmlega 15 þúsund einstaklingum eða 0,04 prósent.

„Sýnataka tvö hefði líklega náð fjórum af þessum einstaklingum hefði hún verið komin til framkvæmda á þeim tíma en þetta var í byrjun landamæraskimunar. Þessir einstaklingar náðu að smita talsvert frá sér," segir Þórólfur.

Þetta sýni einnig mikilvægi þess að hafa tvær skimanir. Hann segir jafnframt að þekkingin sem hlotist hefur af skimuninni sé ómetanleg og leggi grunninn að þeim tillögum sem lagðar hafa verið fyrir stjórnvöld.

Tvær tegundir veirunnar hafa komist inn í landið frá 15. júní og er önnur þeirra sérstaklega að valda vandræðum innanlands. Sú sýking er talsvert útbreidd hér á landi og samanstendur af tæplega 130 einstaklingum sem hafa smitast, fjórum innlögnum á sjúkrahús og þar af þurfti einn að fara á öndunarvél í nokkra daga.